Körfubolti

„Þær eru betri en við en það getur allt gerst“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rebekka Rán Karlsdóttir varð bikarmeistari með Snæfelli árið 2016 en kom þá ekki inn á í úrslitaleiknum.
Rebekka Rán Karlsdóttir varð bikarmeistari með Snæfelli árið 2016 en kom þá ekki inn á í úrslitaleiknum. S2 Sport

1. deildarlið Snæfells komst alla leið í undanúrslit VÍS-bikarsins þar sem þær mæta Subway-deildar liði Breiðabliks í dag. Fyrirliði Hólmara er ekkert allt of bjartsýn á sigur fyrir leikinn en miði er möguleiki.

„Þetta leggst bara mjög vel í okkur og bara gaman að fá að vera þarna,“ sagði Rebekka Rán Karlsdóttir, fyrirliði Snæfells. Breiðabliksliðið er á heimavelli og deild fyrir ofan. Það er því ljóst að þær eru mun sigurstranglegri í þessum leik.

„Það er alltaf möguleiki og ég held að við getum alveg strítt þeim eitthvað ef við mætum hundrað prósent tilbúnar til leiks. Þær eru náttúrulega í deildinni fyrir ofan og eru betri en við en það getur allt gerst,“ sagði Rebekka sem hefur skorað 19 stig að meðaltali í leik í bikarnum í vetur.

Klippa: Viðtal við Rebekku Rán Karlsdóttur

Rebekka Rán var sjálf í Snæfellsliðinu sem vann titla hér fyrir nokkrum árum en þá sem aukaleikari. Nú er hún leiðtogi liðsins.

„Við erum þarna nokkrar eftir en þetta er þannig séð nýtt lið. Við erum í uppbyggingu og með margar ungar stelpur með okkur. Þetta er gaman fyrir þær og við sem erum eldri og reynslumeiri reynum að skila einhverju til þeirra,“ sagði Rebekka.

„Ég reikna með því að við fáum góða mætingu úr Hólminum. Það er alltaf góð mæting úr Hólminum. Ég set pressu á þau núna,“ sagði Rebekka létt að lokum. Það má sjá spjallið við hana hér fyrir ofan.

Undanúrslitaleikur Breiðabliks og Snæfells fer fram í Smáranum í Kópavogi og hefst klukkan 17.15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×