Handbolti

25 ára liðsfélagi Ómars Inga og Gísla fær stöðuhækkun í danska landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magnus Saugstrup skorar fyrir Dani á móti Íslendingum en hér hefur Ómar Ingi Magnússon misst af liðsfélaga sínum hjá Magdeburg.
Magnus Saugstrup skorar fyrir Dani á móti Íslendingum en hér hefur Ómar Ingi Magnússon misst af liðsfélaga sínum hjá Magdeburg. Getty/ Jure Erzen

Magnus Saugstrup er framtíðarleiðtogi danska landsliðsins og hefur fengið viðurkenningu sem sýnir það svart á hvítu.

Saugstrup er 25 ára línumaður og hefur nú verið valinn nýr varafyrirliði danska landsliðsins. Landsliðsþjálfarinn Nikolaj Jacobsen tilkynnti það í gær. Heimsmeistararnir horfa þar til framtíðar en aðalfyrirliðinn er markvörðurinn snjalli Niklas Landin Jacobsen.

Saugstrup er liðsfélagi Ómars Inga Magnússonar og Gísli Þorgeirs Kristjánssonar hjá þýska úrvalsdeildarfélaginu SC Magdeburg.

Saugstrup tekur við varafyrirliðastöðunni af hornamanninum Lasse Svan Hansen sem er að setja landsliðsskóna upp á hillu.

„Magnús er á mjög góðum aldri og mun vonandi spila með landsliðinu í mörg ár til viðbótar. Það bera allir í liðinu virðingu fyrir honum og hann er góður Norður-Jótlands strákur með góð heilbrigð gildi. Hann er ekki sá háværasti en Magnús er að taka á sig meiri og meiri ábyrgð,“ sagði Nikolaj Jacobsen við TV 2.

„Þegar ég varð að velja nýjan varafyrirliða hjá liðinu þá var þetta ekki mjög erfið ákvörðun,“ sagði Nikolaj.

Saugstrup hefur verið á mikilli uppleið með danska landsliðinu og átti sem dæmi mjög gott Evrópumót í janúar.

Fyrsti landsleikur hans var á móti Íslandi 7. apríl 2018. Hann hefur nú leikið 49 landsleiki og skorað í þeim 106 mörk.

Saugstrup lék áður hjá Arnóri Atlasyni hjá Álaborg en gekk til liðs við Magdeburg síðasta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×