Körfubolti

Njarðvíkingar hafa beðið í 1.220 daga eftir að vinna KR í Ljónagryfjunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nicolas Richotti skoraði bara eitt stig í fyrri leiknum og klikkaði þá á öllum níu skotum sínum utan af velli. Hann fékk líka fimm villur.
Nicolas Richotti skoraði bara eitt stig í fyrri leiknum og klikkaði þá á öllum níu skotum sínum utan af velli. Hann fékk líka fimm villur. Vísir/Bára Dröfn

Njarðvíkingar taka á móti KR í Subway-deild karla í körfubolta í Ljónagryfjunni í kvöld en þetta er frestaður leikur.

Njarðvíkingar eru í toppbaráttu deildarinnar á sama tíma og KR-ingar eru að berjast um að komast í úrslitakeppnina.

Eftir tap í framlengingu í Keflavík á föstudagskvöldið þá datt KR út úr úrslitakeppnissæti. Liðið er nú í níunda sætinu.

Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Hann hefst klukkan 19.15 en útsendingin byrjar klukkan 19.00.

Það er orðið langt síðan að Njarðvík vann KR í Ljónagryfjunni eða rúmir fjörutíu mánuðir. Njarðvík vann KR síðast á heimavelli sínum 9. nóvember 2018 en síðan eru liðnir meira en 1.220 dagar.

KR hefur unnið tvo síðustu leiki sína í Ljónagryfjunni, með fjórum stigum í fyrra og svo með sex stigum árið 2020.

KR-ingar hafa enn fremur unnið níu af síðustu ellefu deildarleikjum liðanna í Ljónagryfjunni en þar erum við að tala um innbyrðis leiki félaganna frá og með árinu 2010.

Njarðvíkingar hafa verið í miklum vandræðum með KR síðustu ár en liðið þeirra í dag ætti að hafa alla burði til að breyta því í kvöld.

Það gæti kannski orðið erfiðara verkefni en taflan sýnir. KR vann nefnilega fyrri leik liðanna í Vesturbænum með sextán stiga mun, 91-75. Njarðvíkingar voru þá án þeirra Hauks Helga Pálssonar og Loga Gunnarssonar og munar um minna.

  • Síðustu deildarleikir NJarðvíkur og KR í Ljónagryjunni:
  • 2020-21: KR vann 4 stiga sigur (81-77)
  • 2019-20: KR vann 6 stiga sigur (87-81)
  • 2018-19: Njarðvík vann 18 stiga sigur (85-67)
  • 2017-18: KR vann 4 stiga sigur (73-69)
  • 2016-17: KR vann 1 stigs sigur (81-80)
  • 2015-16: KR vann 11 stiga sigur (100-89)
  • 2014-15: KR vann 10 stiga sigur (86-76)
  • 2013-14: KR vann 9 stiga sigur (83-74)
  • 2012-13: Njarðvík vann 11 stiga sigur (88-77)
  • 2011-12: KR vann 10 stiga sigur (98-88)
  • 2010-11: KR vann 20 stiga sigur (91-71)
  • Samtals:
  • 9 sigrar hjá KR
  • 2 sigrar hjá Njarðvík

Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×