Erlent

Dæmdur í 150 daga fangelsi fyrir að ljúga til um árás

Atli Ísleifsson skrifar
Jussie Smollett í dómsal í Chicago í gær. Kviðdómur fann hann sekan af fimm ákæruliðum í desember síðastliðinn en dómari greindi frá refsingu yfir leikanum í gær.
Jussie Smollett í dómsal í Chicago í gær. Kviðdómur fann hann sekan af fimm ákæruliðum í desember síðastliðinn en dómari greindi frá refsingu yfir leikanum í gær. AP

Bandaríski leikarinn Jussie Smollett hefur verið dæmdur í 150 daga óskilorðsbundið fangelsi og þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa sviðsett árás á sjálfan sig í Chicago í janúar 2019.

Smollett var fundinn sekur af kviðdómi í desember síðastliðinn en dómari í Chicago tilkynnti um refsinguna yfir Smollett í gær.

Niðurstaða kviðdóms var sú að Smollett hafi logið að lögreglu þegar hann fullyrti að hann hafi verið fórnarlamb árásar sem hann sagði hafa grundvallast á hatri árásarmanna á samkynhneigðum og svörtum. Hafi ætlunin með því að vekja athygli á sjálfum sér og fá samúð.

Smollett er auk þess dæmdur til að greiða 145 þúsund Bandaríkjadali í bætur, um tuttugu milljónir íslenskra króna.

Smollett, sem gerði garðinn frægan fyrir hlutverk sitt í þáttunum Empire, tilkynnti lögreglu um árásina í janúar 2019 og sagði hann tvo árásarmenn hafa hrópað að honum ýmsum ókvæðisorðum og slagorð stuðningsmanna Donalds Trump, þáverandi Bandaríkjaforseta. Sagði hann mennina hafa kastað kemísku efni á hann og komið snöru fyrir utan um hálsinn á honum þar sem hann var á gangi heim að næturlagi í Chicago.

Lögregla hóf rannsókn á málinu í febrúar 2019 vegna gruns um að Smollett hafi sviðsett árásina í þeim tilgangi að vekja athygli á sjálfum sér. Átti hann að hafa greitt bræðrum, þeim Abimbola og Olabinjo Osundairo alls 3.500 dali, um hálfa milljón króna, fyrir það að ráðast á sig. Abimbola hafði þá starfað sem aukaleikari í þáttunum Empire.


Tengdar fréttir

Smollett fundinn sekur um að hafa logið til um árás

Bandaríski leikarinn Jussie Smollett laug að lögreglu þegar hann fullyrti að hann hafi verið fórnarlamb árásar sem hann sagði hafa grundvallast á hatri árásarmanna á samkynhneigðum og svörtum.

Lögregla birtir myndband af Smollett með snöruna um hálsinn

Lögregla í Chicago í Bandaríkjunum birti í gær myndband af leikaranum Jussie Smollett sem tekið er nokkrum klukkustundum eftir að meint árás, sem Smollett heldur því fram að hann hafi orðið fyrir, átti sér stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×