Njáll Trausti beindi fyrirspurn sinni að heilbrigðisráðherra og spurði hver kostnaður ríkisins var fyrir hverja nótt að meðaltali á sóttvarnahótelum frá því að heimsfaraldurinn hófst og hver heildarkostnaður ríkisins við leigu og rekstur sóttvarnahótela hafi verið á sama tíma. Samkvæmt svari við fyrirspurn Njáls er heildarkostnaður ríkisins við leigu og rekstur sóttvarnahótela 4.086.443.262 krónur.
Mikill styr stóð um hvort skikka ætti fólk í einangrun á sérstök sóttkvíarhótel í fyrra og efuðust margir um lögmæti aðgerðarinnar. Að endingu var skorið úr um að sóttvarnalæknir hefði gengið lengra en sóttvarnalög heimiluðu með því að skikka fólk sem sannarlega hafði í hús að venda hér á landi til að sæta fimm daga sóttkví í til þess gerðu sóttvarnarhúsi.
Ráðuneytið sendi fyrirspurnir til Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, Heilbrigðisstofnunar Austurlands og Sjúkratrygginga Íslands í viðleitni sinni til að svara fyrirspurn þingmannsins, en stofnanirnar hafa allar gert samninga um leigu á sóttvarnahótelum.
Enn fremur kemur fram í svarinu að kostnaður ríkisins fyrir hverja nótt hafi verið að meðaltali 4.758 kr. hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, 15.735 kr. hjá Sjúkratryggingum Íslands og 16.000 kr. hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands.