Þetta kemur fram í svari Icelandair við fyrirpsurn Túrista. Í grein miðilsins segir að í sumar muni samningar Icelandair um festingar á kaupverði eldsneytis renna út.
Í grein Túrista segir að ekki sé óþekkt ða flugfélög kaupi eldsneyti á markaðsverði, í stað þess að festa verðið fram í tímann. Það hafi til dæmis verið gert af forsvarsmönnum Wow Air, með góðum árangri þegar olíuverð var lágt. Hins vegar reyndist það erfitt þegar verð hækkaði.
Nú hefur olíuverð hækkað hratt í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Bent er á að Wizz Air hafi verið að festa verð til næstu fjögurra mánaða og það í 1.172 dali á tonnið. Þá er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, úr viðtali við Fréttablaðið í síðustu viku þar sem hann sagði að hækkanir upp fyrir 800 dali á tonnið muni hafa neikvæð áhrif á afkomu.
Merki um hækkanir
Rætt var við Kristján Sigurjónsson hjá Túrista í Reykjavík síðdegis í dag. Þar var rætt við hann um stöðuna í ferðabransanum vegna innrásarinnar og sagði hann óvissuna mikla. Þetta væri vandamál fyrir ferðaþjónustuna almennt.
„Á einhverjum tímapunkti hlýtur þetta eldsneytisverð að skila sér út í verðlagið og valda því að fargjöldin fari upp á við. Það eru svo sem merki um það nú þegar að það sé farið að gerast,“ sagði Kristján meðal annars.
Stríð í Evrópu væri þar að auki fráhrindandi í augum Bandaríkjamanna, stærsta hóp ferðamanna sem sækja Ísland heim.
Hlusta má á spjallið við Kristján hér að neðan.