Flúðu trúarofbeldi í sértrúarsöfnuðum á Íslandi Sunna Valgerðardóttir skrifar 8. mars 2022 07:01 Viðmælendur Kompás lýsa reynslu sinni úr sértrúarsöfnuðum á Íslandi, þar sem andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi kemur við sögu. Mörg þúsund Íslendingar hafa tilheyrt sértrúarsöfnuðum. Ein sterkustu einkenni hópanna eru strangt skipulag, mikið kennivald og félagslegt taumhald sem er vaktað af valdamiklum leiðtoga. Fólk sem hættir í söfnuðunum upplifir flest depurð, kvíða og áfallastreitu eftir dvölina og mörg hafa orðið fyrir alvarlegu ofbeldi. Í Kompás köfum við ofan í hugtakið trúarofbeldi og ræðum við fyrrverandi meðlimi sértrúarsafnaða. Flest höfum við leitað til æðri máttarvalda á einhverjum tímapunkti. Bæn, hugleiðsla eða öndunaræfing geta veitt huggun og vísað okkur veginn. En öfgar í trú og sjálfshjálp geta líka verið svo skaðlegar að leitandi fólk endar andlega og fjárhagslega gjaldþrota, með mölbrotna sjálfsmynd, kvíðið, þunglynt og stundum jafnvel á barmi sjálfsvígs. Úrsögn úr söfnuðunum er töluvert algeng og alltaf spretta sömuleiðis upp nýir hópar svo það er erfitt að átta sig á nákvæmum fjölda þeirra sem tilheyra því sem við skilgreinum sem sértrúarsöfnuð, eða költ. Tengslin skipta meira máli en trúin sjálf Þegar kemur að kristilegum sértrúarsöfnuðum er hugtakið skilgreint sem trúarhópur sem aðhyllist sértrú sem söfnuðurinn trúir að sé hinn eini sannleikur sem geti bjargað fólki frá glötun. „Trú og trúarhreyfingar geta verið á skalanum heilbrigðar yfir í óheilbrigðar og beinlínis hættulegar. Það getur verið spennuþrungið samband milli sértrúarhópa eða samfélagsins í heild. Sem gerir það að verkum að þeir einangrast,“ segir Bjarni Randver Sigurvinsson, guð- og trúarbragðafræðingur. Hann undirstrikar að þó að trúin skipti vissulega miklu máli þegar kemur að svona söfnuðum, sé annað sem skipti yfirleitt enn meira máli. „Meginástæðan fyrir því að fólk gengur til liðs við trúarhreyfingar eru félagstengslin.” Fjöldamorð, sjálfsvíg og nauðganir Frægustu skaðlegu sértrúarsöfnuðir sögunnar eiga flestir rætur sínar í Bandaríkjunum. Ber þar helst að nefna People’s Temple, Heaven’s Gate, Vísindakirkjuna, NXIVM, Manson fjölskylduna, Branch Davidians og Children of God. People’s Temple endaði með fjöldamorði þar sem um þúsund fylgjendur Jim Jones létu lífið, meðlimir Heaven’s Gate frömdu fjöldasjálfsvíg, Manson fjölskyldan framdi ein frægustu morð sögunnar og meðlimir Branch Davidians brunnu margir inni í umsátrinu við Waco í Texas. Og þó að hörmungarnar innan hinna safnaðanna hafi ekki verið eins sýnilegar og grófar, eru til endalausar sögur og frásagnir fyrrum meðlima þar sem þeir lýsa pyntingum, andlegu og líkamlegu ofbeldi, grófu kynferðisofbeldi og fjárhagslegu gjaldþroti eftir dvöl sína. Þó að engin viðlíka dæmi séu til á Íslandi, starfa hér skaðlegir söfnuðir sem ganga fram í nafni kærleika, frelsis og umburðarlyndis. Mörg höfum við tekið á móti trúboðum heim til okkar, hrist svo hausinn og haldið áfram með lífið. En hvernig er það raunverulega að vera í sértrúarsöfnuði á þessu fámenna landi, þar sem allir vita allt um alla og trú er almennt ekki mikið í tísku? Hent í gólfið og misþyrmt fyrir samkynhneigð Steinunn Anna Radha gekk í sértrúarsöfnuðinn Krossinn, nú Smárakirkju, í kring um 2015 þá fimmtán ára gömul. Hún hafði verið mjög virk í kristilegu starfi frá barnæsku og stundaði meðal annars samkomur í Hvítasunnusöfnuðinum Fíladelfíu. „Þar hitti ég konu sem kemur til mín og segir: „Heyrðu, þú vilt ekki prófa unglingastarfið í Smárakirkju?“ Sem ég geri. Manni er tekið extra-vel til að fá mann með og svoleiðis. Þannig að allt í einu er ég bara farin að mæta sex sinnum í viku í kirkju,“ segir Steinunn. Fordómar gegn samkynhneigð og ótti við syndina er alltumlykjandi í kristilegum sértrúarsöfnuðum og þar var Smárakirkja engin undantekning. Kynlíf fyrir hjónaband og sambönd samkynhneigðra var meðal þess sem var predikað sem syndugt í kirkjunni. Steinunn er sjálf samkynhneigð og segir að því hafi verið tekið mjög illa innan kirkjunnar. „Unglingaleiðtoginn í kirkjunni tók mig í gólfið, knésetti mig og stóð ofan á maganum á mér til að reka út djöflana sem áttu að gera mig samkynhneigða. Hann sagðist sjá það í augunum á mér að það væru bara djöflar þarna inni.” Árásin átti sér stað fyrir framan fimm aðra unglinga í kirkjunni. „Þetta var mjög vont,” segir Steinunn. „En ég vissi ekkert hvað ég átti að gera. Ég fraus bara, eins og er þekkt að gerist þegar maður verður fyrir ofbeldi.“ Misnotuð ítrekað af ofbeldisfullum leiðtoga Það loðaði við Steinunni að hún væri syndug sökum kynhneigðar sinnar. Og ekki bætti úr skák að hún væri með dekkri húð. Og það sem verra er, þá trúði hún því sjálf. „Það sem annað fólk sagði við mig stjórnaði mér algjörlega. Þegar maður er þetta fastur, eins og ég var á þessum tímapunkti, þá er þetta bara sannleikurinn.“ En ofbeldið náði líka út fyrir veggi kirkjunnar. Hún var beitt alvarlegu kynferðisofbeldi ítrekað í heilt ár, af sama unglingastarfsleiðtoga og ætlaði að reka úr henni andana sem gerðu hana samkynhneigða. Hann bauð Steinunni reglulega heim til sín og braut á henni þar. „Hann lét mér líða eins og ég væri sérstök. Og misnotaði mig þar yfir heilt ár. En ég kærði, vann málið og hann var dæmdur.“ Þú átt að elska alla nema bara alls ekki Salómon Smári Óskarsson ólst upp með móður sinni í Hvítasunnusöfnuðinum í Kirkjulækjarkoti. Hann segir það hafa verið mjög flókið að taka inn allar öfgakenndu hugmyndirnar sem predikararnir boðuðu og það hafi oft gert hann þunglyndan, kvíðinn og fullan af skömm. Öfgakennd bókstafstrú er yfirleitt uppfull af tvíræðni, hræsni, fáfræði og fordómum. „Þú átt að elska alla! Ókei, ég get lifað með því. Þú ert ekki í lagi ef þú ert samkynhneigður! Þarna eru tveir hlutir sem skarast svolítið mikið á,“ segir Salómon, sem kom nýlega út úr skápnum sem pankynhneigður. „Ég var að díla við hugmyndir um að helmingurinn af fólkinu sem var í söfnuðinum hafði sagt eitthvað neikvætt um samkynhneigða í mín eyru.“ „Þetta á að koma frá Guði. Þá gerir maður bara ráð fyrir því að þau hafi rétt fyrir sér og þú sért eitthvað skrímsli.“ Salómon gat ekki sofið almennilega í mörg ár vegna sektarkenndarinnar sem hann fann vegna kynhneigðar sinnar. „Alltaf þegar ég var að fara að sofa, þá átti ég til að hugsa um einhvern sætan strák í skólanum. Svo mundi ég að það væri synd,“ segir hann. „Ef ég dey núna í svefni, þá fer ég til helvítis. Þá þurfti ég að biðja Guð afsökunar og síðan hófst þessi hringekja upp á nýtt.“ Börnin áttu að bjarga öðrum frá helvíti Elísabet Jónsdóttir ólst upp til átta ára aldurs í sértrúarsöfnuðinum Frelsinu, sem var byggt á mjög íhaldssömum, kristnum gildum. „Fólk talaði stundum tungum. Það var gospeltónlist. Þetta var rosa svipað og maður sér í bandarískum bíómyndum,“ segir Elísabet. „Það var mikið minnst á helvíti í barnastarfinu hjá okkur, það situr mikið í mér. Okkur var kennt að allir sem trúa ekki á Guð þegar þeir deyja, að þeir munu brenna í helvíti að eilífu í vítiskvölum. En við gætum komið í veg fyrir það með því að bjarga þeim. Með því að frelsa vini okkar gætum við komið í veg fyrir að þau mundu brenna í helvíti að eilífu.“ Pony, Pokémon og Harry Potter frá djöflinum Hún var mjög kvíðið barn, enda var mikið hamrað á því sem var bannað eða hættulegt. Og það var margt sem féll undir þann hatt. „Ég hafði miklar áhyggjur af því þegar ég stalst til að horfa á Pokemon heima hjá vinkonu minni, að þá væri ég syndug og á leiðinni til helvítis. Furby var bannað. Einhver fékk þá flugu í höfuðið að þeir væru andsetnir. Svo einhvern tímann áttu Póníhestarnir að fara sömu leið. Og Harry Potter,“ segir Elísabet. „Það var svo mikið lagt upp úr syndinni og að iðrast synda sinna þannig að maður fór nánast að skammast sín til öryggis. Að biðja Guð fyrirgefningar til að vera viss um að fara ekki til helvítis.“ Guð lagaði mömmu og pabba Reynsla Sigríðar Lund Hermannsdóttur af Frelsinu er töluvert önnur og alvarlegri en Elísabetar. Hún var orðin fullorðin þegar hún gekk í söfnuðinn, enda einn af stofnendum hans. Sigríður átti flókna æsku, foreldrar hennar voru mjög ungir þegar þau eignuðust hana, pabbinn var í aðal-hljómsveitinni í Vestmannaeyjum og djammið var mikið með hávaðanum og rifrildinu sem því fylgdi. „Svo gerist það að þau frelsast. Og þetta þótti alveg rosa magnað, pabbi var í Logum og það var viðtal í blaðinu frá Reykjavík, það kom blaðamaður frá Reykjavík til að taka viðtal við pabba, Hermann Ingi í Logum var bara frelsaður,“ segir Sigríður og hlær. „Og litla stelpan í mér bara upplifir þetta bara eins og þetta sé málið.“ Þarna sá Sigga litla fyrst kyngimögnuð áhrif trúarinnar. Allt í einu var partýið búið, morgunverðurinn beið hennar þegar hún vaknaði á meðan pabbi var að ryksuga. Allt Guði að þakka. Litla sex ára stelpan heldur áfram dauðahaldi í trúnna og fer að sækja samkomur í Betel í Vestmannaeyjum - þar til hún verður sextán ára og flytur til Reykjavíkur þar sem hún gekk í Hvítasunnusöfnuðinn Fíladelfíu. Bætti fyrir syndir sínar með Biblíuskóla Hún kynntist barnsföður sínum í Fíladelfíu, giftist honum á 18 ára afmælisdaginn sinn, hrein mey og ennþá hálfgert barn. Kynlíf fyrir hjónaband var bannað í söfnuðinum. Ungu hjónin eignuðust barn, en skildu eftir sex ára samband. Skilnaðir eru stranglega bannaðir innan kirkjunnar og sagði Sigríður fljótlega skilið við söfnuðinn. Og við tók töluvert öðruvísi tímabil, sem þó varði stutt. Sigríður fékk vinnu á Hard Rock, keypti sér rússneskan Vodka, daðraði við karlmenn og endaði fyrsta fylleríið sitt heima hjá körfuboltastrák. „En ég man þegar ég fór heim daginn eftir. Skömmin. Þú varst búin að syndga og brjóta gegn Guði og þú varst bara á leiðinni til helvítis. Og þetta er rosalega raunveruleg tilfinning,“ segir Sigríður. Hún spurði Guð í angist sinni hvað hún gæti mögulega gert til að bæta fyrir brot sín. Svarið var að finna í borginni Ocala í Flórída. Þangað flaug Sigríður skömmu síðar þar sem hún varði næstu sjö mánuðum við nám í Biblíuskóla. „Það var tími í skólanum sem hét How To Take a City. Hvernig ætlarðu að ná til samfélagsins eða borgarinnar? Ég sá alltaf fyrir mér miðstöð í miðbæ Reykjavíkur, sem væri svona upbeat, heillaði ungt fólk sem kæmi inn í stórum stíl og frelsaðist, það mundi síðan heilla eldra fólkið og þannig mundum við bara taka Ísland og segja öllum hvað Jesú væri æðislegur.“ Valin í landslið Guðs á Íslandi Hún er kölluð inn til pastorsins, leiðtogans Pastor Richards, þar sem hún er spurð hvað hún ætli að gera þegar heim er komið. „Maður finnur strax hvað leiðtogar eru miklu æðri en þú.“ „Og þá segir hann: Það eru ung hjón sem ætla að stofna svona kirkju í miðbæ Reykjavíkur. Myndir þú taka þátt í því? Og ég bara, já! Ég mundi sko gera það allan daginn. Vegna þess að pastor Richards sagði að ég væri manneskja í þetta þá leið mér eins og ég hafði verið valin í landslið Guðs á Íslandi,“ segir Sigríður. „Og í framhaldi af því lendi ég svo í Frelsinu - Kristilegri miðstöð, sem var náttúrulega bara algjör heilaþvottakirkja.“ Skráð hverjir komu og hverjir borguðu Frelsið var stofnað haustið 1995, í miðbæ Reykjavíkur, við Hlemm. Fyrst taldi söfnuðurinn einungis fimm meðlimi, Sigríði, bróður hennar, vin hennar og svo leiðtogarnir, hjónin Lindu Björk Magnúsdóttur og Hilmi Kristinsson. Söfuðurinn stækkaði hratt og taldi fljótlega nokkur hundruð manns. „Það voru samkomur oft í viku og endalaus vinna,” segir Sigríður. „Oft vorum við sótt heim til að vinna ef við vorum veik. Það var skráð í kladda hverjir komu hvenær. Og með tíundina, það var skráð hverjir borguðu. Ef þú borgaðir ekki, var hringt í þig.“ Hún undirstrikar að þetta hafi allt byrjað voðalega fallega. „En það er mjög fljótlega sem maður sér að leiðtogarnir fara að stíga inn í einhverskonar ofurvald. Ég man alltaf setninguna sem var hömruð í okkur: „Serve your leaders as on to God. Þjónaðu leiðtogunum eins og þeir séu Guð. Og þú settir bara samasemmerki þarna á milli.“ Trúa að þeir séu útvaldir af Guði Petra Hólmgrímsdóttir var með Sigríði í Frelsinu, en hún starfar nú sem sálfræðingur þar sem hún sérhæfir sig meðal annars í meðferð fólks sem hefur sagt skilið við sértrúarsöfnuði. Hún segir margt sameiginlegt með þeim, sem og þeim sem leiða söfnuðina. „Allir þessir leiðtogar trúa því að þeir séu með einhverskonar köllun frá Guði,“ segir hún. „Það á að fylgja þeim í einu og öllu. Þau voru leiðtogarnir, þau voru næst Guði.“ Petra byrjaði í Frelsinu þegar hún var 16 ára gömul og fór strax alla leið í safnaðarstarfinu. Hún starfar nú sem sálfræðingur og sérhæfir sig í meðferð fólks sem hefur verið beitt trúarofbeldi. Vísir/Adelina „Á þessum tíma fannst manni ekkert óeðlilegt að allar helgar færu í það að þjóna söfnuðinum. Að vera í trúboði í miðbænum langt fram á laugardagsmorgni og á sunnudögum var mætt snemma til að þrífa safnaðarheimilið og allt þetta.“ Leiðtogarnir völdu maka handa öðrum og bönnuðu kynlíf Reglurnar í Frelsinu voru mjög strangar á allan hátt, ekki síst hvað varðaði samskipti kynjanna. „Við völdum okkur ekki maka. Þau völdu maka. Þau stjórnuðu í rauninni öllu.“ segir Sigríður, sem fékk ekki að eignast maka á þeim sex árum sem hún var í söfnuðinum, frá 24 til 31 árs. Hún varð skotinn í karlmanni en fékk þau skilaboð að hann væri ekki maðurinn fyrir hana. „Þetta var bara andlegt ofbeldi. Þetta var aldrei einhver kærleikur og friður.“ Linda og Hilmir, hjónin sem leiddu söfnuðinn, komu Sigríði fyrir í raðhúsaíbúð með fimm öðrum stelpum úr söfnuðinum þar sem þær bjuggu saman og þjónuðu Guði. Samantha vakti upp löngu deyfðar tilfinningar Þó að það hafi ekki verið vel séð að vera heima veikur, þá kom sá dagur að Sigríður varð það lasin að hún fékk að vera heima. Hún kveikti á sjónvarpinu og við henni blasti sena úr Sex and the City þar sem stuðboltinn Samantha var við það að fá fullnægingu, eins og gerðist annað slagið í þáttunum. Sex and the City var á algjörum bannlista hjá meðlimum Frelsisins. „Einhvers staðar grófust upp þessar tilfinningar sem ég var búin að deyfa niður. Þetta er bara synd, að girnast, langa og hugsa um kynlíf. Ég veit ekki hvort ég á að segja þetta…“ segir Sigríður, gerir hlé á máli sínu, fær sér kaffisopa en heldur svo áfram. „Þetta bara lýsir svo ástandinu. Allavega, ég fór upp í herbergi. Ég veit ekki hvort ég eigi að bæta þessu við… ég tók með mér gúrku. Og ég lét eftir mér það sem vaknaði við að horfa á þetta litla brot, því svo slökkti ég því ég fattaði hvað var að gerast.“ Tilhugsunin um þetta atvik er vissulega fyndin í dag, en Sigríði leið mjög illa í margar vikur eftir þetta, uppfull af skömm. „Á sex árum stundaði ég tvisvar kynlíf með sjálfri mér, en í bæði skiptin með þeim kostnaði að líða svona hræðilega illa eftir það og uppfull af skömm.“ Vottar Jehóva, útskúfunin og óeðlilegu reglurnar Það gekk erfiðlega að finna viðmælendur fyrir Kompás sem höfðu verið í Vottum Jehóva, sem er einn fjölmennasti sértrúarsöfnuður á Íslandi. Einn sem við ræddum við hætti við viðtalið á síðustu stundu þar sem hann vildi ekki missa alveg samband við móður sína, sem er enn í söfnuðinum. Óvígð sambúð, sambönd samkynhneigðra og sambönd við fólk utan safnaðarins er bannað hjá Vottunum. Þau halda ekki jól, páska eða aðrar hátíðir, fagna ekki afmælisdögum, þiggja hvorki blóðgjöf við læknismeðferðir né gefa blóð. Þeir starfa ekki með öðrum trúfélögum og afneita þróunarkenningunni. Og Vottarnir ganga mun lengra en margir aðrir trúarhópar þegar kemur að félagslegri útskúfun. Bjarni Randver, trúarbragða- og guðfræðingur, segir að Vottar Jehóva hafi verið töluvert gagnrýndir um allan heim fyrir sýn sína á félagslegt taumhald og sérstaklega hvernig komið er fram við fyrrverandi meðlimi. Vísir/Adelina „Það eru allmargir á hverju ári, um allan heim, sem verður útskúfað með þessum hætti. Þá er lokað á öll tengsl við viðkomandi,“ segir Bjarni Randver, trúarbragðafræðingur. „Gagnrýnendurnir segja að viðkomandi einstaklingar sem snúa aftur gera það ekkert oft á trúarlegum forsendum, heldur til þess að endurnýja félagstengslin við sína nánustu sem höfðu rofnað með þessum hætti. Við börn, við maka, við foreldra, vini og þar fram eftir götunum.“ Við erum ekki sértrúarsöfnuður Á heimasíðu Vottanna er að finna ýmsan fróðleik um viðhorf þeirra, til dæmis hvers vegna þau séu ekki sértrúarsöfnuður. Rökin eru þau að þau iðki trú sem sé til góðs, enginn maður sé leiðtogi, heldur einungis Jesú Kristur og að ekki sé um að ræða ný trúarbrögð. Þá er undirstrikað að það standi í Biblíunni að kynferðislegur ólifnaður, á borð við samkynhneigð, sé rangur. Reglurnar eru margar og strangar og sérstaklega varðandi þau sem yfirgefa söfnuðinn. Mörgum finnst erfitt að fóta sig eftir að hafa hætt, eins og sumir sem Kompás ræddi við, en sumir snúa aftur. Reglulega andsetin af Jezebel-öndum Félagsleg útskúfun er þekkt aðferð innan sértrúarsafnaða til að koma í veg fyrir að fólk yfirgefi söfnuðinn. Frelsið var þar engin undantekning. „Það var rosaleg eineltisstefna þarna,“ segir Sigríður. „Það kom oft fyrir mig og aðra í kirkjunni, að allt í einu ættum við að vera uppfull af einhverjum Jezebel-öndum. Og þá mátti enginn tala við þig. Svo varstu farin að kunna á þetta að lokum og farin að fatta að maður væri örugglega með djöfla inni í sér því enginn var að tala við mann. Þetta er virkilega ljótt.“ Saga Sigríðar innan kristinna bókstafstrúarsafnaða á Íslandi er bæði löng og flókin. Hún lítur þó á þennan tíma sem lærdóm og er þakklát fyrir þann stað sem hún er á í dag. Vísir/Arnar Samkvæmt kristinni bókstafstrú leggjast andar ísraelsku drottningarinnar Jezebel yfirleitt á konur og gera þær vondar, slóttugar, syndugar og ekki síst uppfullar af kynferðislegum losta. „Ein stelpan sem bjó með mér átti einu sinni að hafa horft á pastorinn girndaraugum. Og henni var bara úthúðað og við allar stelpurnar sem bjuggum með henni gerðum það líka. Við bara ignoruðum hana.“ Þvottavélin bilaði því Guð vantaði tíundina Systir Sigríðar sá um bókhaldið í Frelsinu, en fljótlega eftir að hún byrjaði að spyrja spurninga um fjármálin bárust þau skilaboð að hún væri uppfull af djöflum og henni var útskúfað. Og þar sem er reykur, er yfirleitt eldur. Þó að tíundin næði langt, og laun safnaðarmeðlima sömuleiðis, þá var húsnæðið dýrt og pastors hjónin þurftu sitt salt í grautinn. Eins og með langflesta skaðlega sértrúarsöfnuði, voru fjármálin afskaplega vafasöm. „Einu sinni bilaði þvottavélin hjá okkur stelpunum í raðhúsinu. Og það átti að hafa verið bölvun útaf því að ein hafði ekki borgað tíundina,“ segir Sigríður. Petra tekur undir þetta. „Maður trúði því að ef þú borgaðir ekki tíund, tíu prósent af laununum þínum, þá mundi eitthvað slæmt gerast. Guð gæti ekki verndað þig.“ Þær gáfu báðar öll launin sín til safnaðarins og náðu þannig sjálfar ekki endum saman. „Oft sat maður heima há-grátandi, líðandi svo illa. Og ég man bara, ég fæ bara tárin í augun við að hugsa þetta, ég var svo einlæg gagnvart þessum Guði. Ég hugsaði bara: Getur verið að þetta eigi að vera svona?“ segir Sigríður. Notuðu sjálfsvíg sem peningamaskínu Það leið ekki langur tími þar til leiðtogarnir tóku að hugsa út fyrir kassann varðandi fjáröflun. Innan tíðar var stofnað félag innan Frelsisins sem fékk heitið Sókn gegn sjálfsvígum, sem átti eftir að verða stærsta peningamaskína safnaðarins. Þau fengu styrki frá ríkinu, seldu varning í Kolaportinu og söfnuðu helling frá almenningi. Þessi peningur fór í að borga leigu fyrir samkomusalinn og svo keyptu hjónin sér líka einbýlishús í Grafarvogi. „Það kom í ljós á endanum að kirkjan var í skuld upp á fleiri tugi milljóna sem meðlimir höfðu allir skrifað upp á. Hjónin voru alltaf stikkfrí,“ segir Sigríður. „Margir urðu bara gjaldþrota.“ Bjarni Randver undirstrikar að það er fjöldinn allur af dæmum þar sem fólk hefur farið fjárhagslega illa út úr samskiptum sínum við sértrúarsöfnuði. „Það eru leiðtogar, forystumenn, sem eru að misnota aðstöðu sína og misnota viðkomandi fólk,“ segir hann. „Það er enginn skortur á sakamálum.“ Kynferðisbrotin og kirkjurnar Dæmin um sakamál virðast einmitt vera endalaus innan trúarhópa og oft snúast þau um peninga, en svo ekki síður - um kynlíf og kynferðisbrot. Afhjúpun ítrekaðra kynferðisofbeldismála innan íslensku þjóðkirkjunnar sneri öllu á hvolf innan kirkjunnar og svo virðist sem mikið verk sé óunnið þar. Umfangsmesta dæmið er líklega kaþólska kirkjan, en tugir þúsunda kaþólskra presta um allan heim hafa verið ásakaðir um kynferðisbrot gegn börnum síðustu áratugi. Brotin voru hræðileg, gróf og ítrekuð og þögguð kerfisbundið niður um allan heim. Tugir þúsunda kaþólskra presta um allan heim hafa verið ásakaðir um alvarleg kynferðisbrot gegn börnum. Saga kaþólsku kirkjunnar á Íslandi er líka lituð ofbeldi og kúgun. Vísir/Arnar „Þetta er ekki bara bundið við rómversk-kaþólsku kirkjuna. Þetta er í fjölmörgum öðrum trúfélögum. Það er enginn skortur á kynferðisbrotum og kynferðisofbeldi, meira að segja gagnvart börnum,“ segir Bjarni Randver. Pastorsfrúin hélt við tvítugan strák í söfnuðinum Leiðtogar Frelsisins lögðu mikið upp úr ströngum kristilegum gildum varðandi samskipti kynjanna, eins og við höfum fengið að heyra, en það reyndist þeim erfitt að fylgja þeim sjálf. Og það varð þeim að lokum að falli. „Forstöðukonan, pastorsfrúin, fer að halda við tvítugan strák í kirkjunni og hélt því leyndu. Það gekk á í svolítinn tíma.“ „Svo spyrst það út og hennar innsti hringur fær að vita þetta og síðan er gripið til svaka aðgerða,“ segir Sigríður. Það var kallað á presta héðan og þaðan úr heiminum til að bjarga málum, hjónin voru send í endurhæfingu til Flórída og áttu síðan að afsala sér völdum yfir kirkjunni til að bjarga söfnuðinum. En þeim leist illa á það og kölluðu saman fund í Ísaksskóla, sem var nýjasti samkomustaðurinn sem var ekki búinn að úthýsa þeim fyrir að borga ekki leigu. „Þetta springur allt í loft upp og þennan dag gekk ég út úr kirkjunni. En þau ætluðu að reyna að halda starfinu áfram eftir þetta, en það voru bara svo fáir með þeim að það splúndraðist nokkrum dögum eftir þetta og kirkjan var lögð niður.“ Frelsið - Kristileg miðstöð var til húsa við Hverfisgötu fyrstu árin. Svo færði söfnuðurinn sig milli húsa og sala því það gekk erfiðlega að borga leigu á réttum tíma og halda utan um fjármálin. Vísir/Arnar Meðvirknin heldur fólki föstu Kynferðisofbeldið sem Steinunn Anna varð fyrir í Smárakirkju varð til þess að hún sagði loks skilið við söfnuðinn. Tengslanet hennar utan kirkjunnar var mjög laskað eftir tveggja ára einangrun. Hún segir meðvirkni líklega algengustu skýringuna á því að fólk haldist í skaðlegum sértrúarsöfnuðum. „Þau sem tjá sig verða útilokuð og þá standa þau svolítið ein. Ég held að fólk viti innst inni af öllu ofbeldinu og ranghugmyndunum sem geta verið þarna.“ Það kom sömuleiðis að því að Salómon hætti í Hvítasunnusöfnuðinum, þrátt fyrir mikinn þrýsting um að vera um kyrrt. Hann skammaðist sín fyrir dvöl sína gagnvart vinum sínum sem höfðu ekki verið í kirkjunni. „Ég byrja að drekka rosalega mikið í framhaldsskóla. Og ég held að þetta gerist fyrir rosa marga. Flestir sem ég þekki fara annaðhvort úr söfnuðum í eitthvað svona kukl, eða bara eiturlyf. Þér líður smá eins og þú sért freðinn þegar þú ert á samkomu. Og í dag er ég alltaf að leita að einhverri svipaðri tilfinningu, mínus lygar.“ „Manni líður eins og maður sé í algjörum költi þegar maður er þarna.“ Margra ára ferli að læra að lifa upp á nýtt Það tók mörg ár fyrir Sigríði að ná lífi sínu til baka. Hún þekkti engan utan safnaðirins, sambandið við fjölskyldu hennar var slitrótt og hún þurfti í raun að læra að lifa upp á nýtt. „Ég átti svo erfitt með að taka ákvörðun sjálf. Átti ég að fara til hægri eða vinstri? Þetta hefur alltaf verið ákveðið fyrir mig. Hvað ég á að gera, hvernig mér á að líða, hvað Biblían segir, hvað ég á að hugsa. Og ég þurfti bara þarna í fyrsta sinn í lífinu, 31 árs gömul, að hitta mig.“ Petra hefur gert tvær stórar rannsóknir á fólki sem hættir í bókstafstrúar- og sértrúarsöfnuðum. „Þau sem hætta í bókstafstrúarsöfnuðum eru líklegri til að vera minna ánægð með lífið sitt, þau sjá eftir fleiri hlutum, þau takast á við meiri depurðareinkenni, kvíða, áfallastreitueinkenni,” segir hún. „Öll þín fyrri hugmyndafræði um lífið og tilveruna er farin, hvað er rétt og hvað er rangt, hvaða lög finnst mér skemmtileg? Hvað finnst mér um samkynhneigð? Hvað finnst mér um áfengisdrykkju? Hvaða átt sem við viljum fara. Við þurfum að endurskilgreina okkur.“ Petra hefur rannsakað líðan fólks eftir að það hættir í sértrúarsöfnuðum og eiga fyrrverandi safnaðarmeðlimir það margir sameiginlegt að upplifa depurð, kvíða og óvissu eftir dvöl sína.Vísir/Adelina Þó að þrautaganga Sigríðar hafi verið löng og erfið, þá var hún þess virði. „Ég hef aldrei verið eins góð og ég er í dag. Ég var alltaf að leita að því í einhverjum Guði eða Jesú, sem er gott og vel. Ég trúi alveg að það er meira en bara við, ég er mjög andleg og hef alltaf verið. Það hefur ekkert með trúarbrögð að gera. En ég kom heim til mín og það var svo gott.“ Engin viðbrögð frá leiðtogum Við leituðum eftir viðbrögðum hjá forsvarsmönnum safnaðanna, en þar var fátt um svör. Enda hafa þessar hreyfingar átt undir högg að sækja undanfarinn áratug og safnaðarmeðlimum fækkað mikið. Nú eru einungis um þúsund manns samanlagt í Smárakirkju og Vottum Jehóva. Á sama tíma hefur fjöldi þeirra sem er utan trú- og lífsskoðunarfélaga tvöfaldast og telja nú um 30.000 manns. Í næsta Kompásþætti skoðum við aðra tegund sértrúarhópa og ræðum við fólk sem hefur slæma reynslu af andlegum athöfnum tengdum nýaldarhyggju og vill opna sig um ofbeldið í andlega heiminum. Vísir/Arnar Hugmyndir um himnaríki og helvíti þykja nokkuð gamaldags í dag. En vangaveltur um tilgang lífsins og leit að innri frið er fólki áfram ofarlega í huga. Í næsta Kompásþætti skoðum við sértrúarsöfnuði nútímans og hvað getur gerst þegar vanhæfir leiðtogar þvinga sínum hugmyndum á fólk í leit að hjálp. Kompás Trúmál Tengdar fréttir Nýr ópíóíðafaraldur: „Í stöðugri lífshættu nokkrum sinnum á dag” Tuttugu og eitt þúsund Íslendingar eru langtímanotendur ávanabindandi lyfja. Lyfjatengd andlát eru algengust á Íslandi af Norðurlöndunum og hafa þau aldrei verið fleiri en á fyrri helming síðasta árs. 25. janúar 2022 07:00 Mest lesið Skutu niður eigin herþotu yfir Rauðahafi Erlent „Kurr í greininni í dag um að þetta skuli hvort tveggja vera á matseðlinum“ Innlent Yfirgaf jólatónleika í sjúkrabíl Innlent Sádar sagðir hafa sent fjórar viðvaranir Erlent Þakklæti, auðmýkt, rok og söngur ríkisstjórnarinnar Innlent Færeyingar fagna tvennum göngum Erlent Íslenskur skurðlæknir hlúir að fólki í Magdeburg Erlent Mest skreytta jólahúsið í Hveragerði Innlent Breytingar á ráðuneytum taka ekki gildi fyrr en í mars Innlent „Mjög þunn súpa, lítið í henni“ Innlent Fleiri fréttir „Afskaplega róleg“ nótt hjá lögreglumönnum Þakklæti, auðmýkt, rok og söngur ríkisstjórnarinnar „Kurr í greininni í dag um að þetta skuli hvort tveggja vera á matseðlinum“ Breytingar á ráðuneytum taka ekki gildi fyrr en í mars Mest skreytta jólahúsið í Hveragerði Yfirgaf jólatónleika í sjúkrabíl Ný ríkisstjórn Íslands: „Við erum orðnar vinkonur“ Allt um nýja ríkisstjórn Íslands í kvöldfréttum Krónan muni veikjast og allir halda að sér höndum Þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB eigi síðar en 2027 „Mjög þunn súpa, lítið í henni“ Ætla að fjölga lögreglumönnum verulega Vilja ekki plast eða vír á leiðisskreytingar í kirkjugörðum Þetta eru ráðherrar nýrrar ríkisstjórnar Allir punktar stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar Kallar eftir stillingu: „Menn eru saklausir uns sekt er sönnuð!“ Full tilhlökkunar að taka við nýju ráðuneyti „Það verður unnið fyrir heimilin í landinu“ Ný ríkisstjórn og áfall í Magdeburg „Ég held að þetta sé góður dagur fyrir þjóðina“ Áslaug Arna bjargaði kafnandi konu á veitingastað Tveir ungir á 140 kílómetra hraða Vaktin: Ný ríkisstjórn kynnt fyrir landanum Í eðli Sólveigar að vera með hnefann á lofti Hvetja Íslendinga á svæðinu til að láta vita af sér „Maður mun sakna þess mjög“ Engin breyting á hvalveiðileyfi því það sé glænýtt Ríkisstjórn sem þarfnist mikillar samhæfingar milli formannanna Einar baðst fyrirgefningar Áherslur nýrrar ríkisstjórnar, fordæmalausar aðgerðir og minningarathöfn Sjá meira
Flest höfum við leitað til æðri máttarvalda á einhverjum tímapunkti. Bæn, hugleiðsla eða öndunaræfing geta veitt huggun og vísað okkur veginn. En öfgar í trú og sjálfshjálp geta líka verið svo skaðlegar að leitandi fólk endar andlega og fjárhagslega gjaldþrota, með mölbrotna sjálfsmynd, kvíðið, þunglynt og stundum jafnvel á barmi sjálfsvígs. Úrsögn úr söfnuðunum er töluvert algeng og alltaf spretta sömuleiðis upp nýir hópar svo það er erfitt að átta sig á nákvæmum fjölda þeirra sem tilheyra því sem við skilgreinum sem sértrúarsöfnuð, eða költ. Tengslin skipta meira máli en trúin sjálf Þegar kemur að kristilegum sértrúarsöfnuðum er hugtakið skilgreint sem trúarhópur sem aðhyllist sértrú sem söfnuðurinn trúir að sé hinn eini sannleikur sem geti bjargað fólki frá glötun. „Trú og trúarhreyfingar geta verið á skalanum heilbrigðar yfir í óheilbrigðar og beinlínis hættulegar. Það getur verið spennuþrungið samband milli sértrúarhópa eða samfélagsins í heild. Sem gerir það að verkum að þeir einangrast,“ segir Bjarni Randver Sigurvinsson, guð- og trúarbragðafræðingur. Hann undirstrikar að þó að trúin skipti vissulega miklu máli þegar kemur að svona söfnuðum, sé annað sem skipti yfirleitt enn meira máli. „Meginástæðan fyrir því að fólk gengur til liðs við trúarhreyfingar eru félagstengslin.” Fjöldamorð, sjálfsvíg og nauðganir Frægustu skaðlegu sértrúarsöfnuðir sögunnar eiga flestir rætur sínar í Bandaríkjunum. Ber þar helst að nefna People’s Temple, Heaven’s Gate, Vísindakirkjuna, NXIVM, Manson fjölskylduna, Branch Davidians og Children of God. People’s Temple endaði með fjöldamorði þar sem um þúsund fylgjendur Jim Jones létu lífið, meðlimir Heaven’s Gate frömdu fjöldasjálfsvíg, Manson fjölskyldan framdi ein frægustu morð sögunnar og meðlimir Branch Davidians brunnu margir inni í umsátrinu við Waco í Texas. Og þó að hörmungarnar innan hinna safnaðanna hafi ekki verið eins sýnilegar og grófar, eru til endalausar sögur og frásagnir fyrrum meðlima þar sem þeir lýsa pyntingum, andlegu og líkamlegu ofbeldi, grófu kynferðisofbeldi og fjárhagslegu gjaldþroti eftir dvöl sína. Þó að engin viðlíka dæmi séu til á Íslandi, starfa hér skaðlegir söfnuðir sem ganga fram í nafni kærleika, frelsis og umburðarlyndis. Mörg höfum við tekið á móti trúboðum heim til okkar, hrist svo hausinn og haldið áfram með lífið. En hvernig er það raunverulega að vera í sértrúarsöfnuði á þessu fámenna landi, þar sem allir vita allt um alla og trú er almennt ekki mikið í tísku? Hent í gólfið og misþyrmt fyrir samkynhneigð Steinunn Anna Radha gekk í sértrúarsöfnuðinn Krossinn, nú Smárakirkju, í kring um 2015 þá fimmtán ára gömul. Hún hafði verið mjög virk í kristilegu starfi frá barnæsku og stundaði meðal annars samkomur í Hvítasunnusöfnuðinum Fíladelfíu. „Þar hitti ég konu sem kemur til mín og segir: „Heyrðu, þú vilt ekki prófa unglingastarfið í Smárakirkju?“ Sem ég geri. Manni er tekið extra-vel til að fá mann með og svoleiðis. Þannig að allt í einu er ég bara farin að mæta sex sinnum í viku í kirkju,“ segir Steinunn. Fordómar gegn samkynhneigð og ótti við syndina er alltumlykjandi í kristilegum sértrúarsöfnuðum og þar var Smárakirkja engin undantekning. Kynlíf fyrir hjónaband og sambönd samkynhneigðra var meðal þess sem var predikað sem syndugt í kirkjunni. Steinunn er sjálf samkynhneigð og segir að því hafi verið tekið mjög illa innan kirkjunnar. „Unglingaleiðtoginn í kirkjunni tók mig í gólfið, knésetti mig og stóð ofan á maganum á mér til að reka út djöflana sem áttu að gera mig samkynhneigða. Hann sagðist sjá það í augunum á mér að það væru bara djöflar þarna inni.” Árásin átti sér stað fyrir framan fimm aðra unglinga í kirkjunni. „Þetta var mjög vont,” segir Steinunn. „En ég vissi ekkert hvað ég átti að gera. Ég fraus bara, eins og er þekkt að gerist þegar maður verður fyrir ofbeldi.“ Misnotuð ítrekað af ofbeldisfullum leiðtoga Það loðaði við Steinunni að hún væri syndug sökum kynhneigðar sinnar. Og ekki bætti úr skák að hún væri með dekkri húð. Og það sem verra er, þá trúði hún því sjálf. „Það sem annað fólk sagði við mig stjórnaði mér algjörlega. Þegar maður er þetta fastur, eins og ég var á þessum tímapunkti, þá er þetta bara sannleikurinn.“ En ofbeldið náði líka út fyrir veggi kirkjunnar. Hún var beitt alvarlegu kynferðisofbeldi ítrekað í heilt ár, af sama unglingastarfsleiðtoga og ætlaði að reka úr henni andana sem gerðu hana samkynhneigða. Hann bauð Steinunni reglulega heim til sín og braut á henni þar. „Hann lét mér líða eins og ég væri sérstök. Og misnotaði mig þar yfir heilt ár. En ég kærði, vann málið og hann var dæmdur.“ Þú átt að elska alla nema bara alls ekki Salómon Smári Óskarsson ólst upp með móður sinni í Hvítasunnusöfnuðinum í Kirkjulækjarkoti. Hann segir það hafa verið mjög flókið að taka inn allar öfgakenndu hugmyndirnar sem predikararnir boðuðu og það hafi oft gert hann þunglyndan, kvíðinn og fullan af skömm. Öfgakennd bókstafstrú er yfirleitt uppfull af tvíræðni, hræsni, fáfræði og fordómum. „Þú átt að elska alla! Ókei, ég get lifað með því. Þú ert ekki í lagi ef þú ert samkynhneigður! Þarna eru tveir hlutir sem skarast svolítið mikið á,“ segir Salómon, sem kom nýlega út úr skápnum sem pankynhneigður. „Ég var að díla við hugmyndir um að helmingurinn af fólkinu sem var í söfnuðinum hafði sagt eitthvað neikvætt um samkynhneigða í mín eyru.“ „Þetta á að koma frá Guði. Þá gerir maður bara ráð fyrir því að þau hafi rétt fyrir sér og þú sért eitthvað skrímsli.“ Salómon gat ekki sofið almennilega í mörg ár vegna sektarkenndarinnar sem hann fann vegna kynhneigðar sinnar. „Alltaf þegar ég var að fara að sofa, þá átti ég til að hugsa um einhvern sætan strák í skólanum. Svo mundi ég að það væri synd,“ segir hann. „Ef ég dey núna í svefni, þá fer ég til helvítis. Þá þurfti ég að biðja Guð afsökunar og síðan hófst þessi hringekja upp á nýtt.“ Börnin áttu að bjarga öðrum frá helvíti Elísabet Jónsdóttir ólst upp til átta ára aldurs í sértrúarsöfnuðinum Frelsinu, sem var byggt á mjög íhaldssömum, kristnum gildum. „Fólk talaði stundum tungum. Það var gospeltónlist. Þetta var rosa svipað og maður sér í bandarískum bíómyndum,“ segir Elísabet. „Það var mikið minnst á helvíti í barnastarfinu hjá okkur, það situr mikið í mér. Okkur var kennt að allir sem trúa ekki á Guð þegar þeir deyja, að þeir munu brenna í helvíti að eilífu í vítiskvölum. En við gætum komið í veg fyrir það með því að bjarga þeim. Með því að frelsa vini okkar gætum við komið í veg fyrir að þau mundu brenna í helvíti að eilífu.“ Pony, Pokémon og Harry Potter frá djöflinum Hún var mjög kvíðið barn, enda var mikið hamrað á því sem var bannað eða hættulegt. Og það var margt sem féll undir þann hatt. „Ég hafði miklar áhyggjur af því þegar ég stalst til að horfa á Pokemon heima hjá vinkonu minni, að þá væri ég syndug og á leiðinni til helvítis. Furby var bannað. Einhver fékk þá flugu í höfuðið að þeir væru andsetnir. Svo einhvern tímann áttu Póníhestarnir að fara sömu leið. Og Harry Potter,“ segir Elísabet. „Það var svo mikið lagt upp úr syndinni og að iðrast synda sinna þannig að maður fór nánast að skammast sín til öryggis. Að biðja Guð fyrirgefningar til að vera viss um að fara ekki til helvítis.“ Guð lagaði mömmu og pabba Reynsla Sigríðar Lund Hermannsdóttur af Frelsinu er töluvert önnur og alvarlegri en Elísabetar. Hún var orðin fullorðin þegar hún gekk í söfnuðinn, enda einn af stofnendum hans. Sigríður átti flókna æsku, foreldrar hennar voru mjög ungir þegar þau eignuðust hana, pabbinn var í aðal-hljómsveitinni í Vestmannaeyjum og djammið var mikið með hávaðanum og rifrildinu sem því fylgdi. „Svo gerist það að þau frelsast. Og þetta þótti alveg rosa magnað, pabbi var í Logum og það var viðtal í blaðinu frá Reykjavík, það kom blaðamaður frá Reykjavík til að taka viðtal við pabba, Hermann Ingi í Logum var bara frelsaður,“ segir Sigríður og hlær. „Og litla stelpan í mér bara upplifir þetta bara eins og þetta sé málið.“ Þarna sá Sigga litla fyrst kyngimögnuð áhrif trúarinnar. Allt í einu var partýið búið, morgunverðurinn beið hennar þegar hún vaknaði á meðan pabbi var að ryksuga. Allt Guði að þakka. Litla sex ára stelpan heldur áfram dauðahaldi í trúnna og fer að sækja samkomur í Betel í Vestmannaeyjum - þar til hún verður sextán ára og flytur til Reykjavíkur þar sem hún gekk í Hvítasunnusöfnuðinn Fíladelfíu. Bætti fyrir syndir sínar með Biblíuskóla Hún kynntist barnsföður sínum í Fíladelfíu, giftist honum á 18 ára afmælisdaginn sinn, hrein mey og ennþá hálfgert barn. Kynlíf fyrir hjónaband var bannað í söfnuðinum. Ungu hjónin eignuðust barn, en skildu eftir sex ára samband. Skilnaðir eru stranglega bannaðir innan kirkjunnar og sagði Sigríður fljótlega skilið við söfnuðinn. Og við tók töluvert öðruvísi tímabil, sem þó varði stutt. Sigríður fékk vinnu á Hard Rock, keypti sér rússneskan Vodka, daðraði við karlmenn og endaði fyrsta fylleríið sitt heima hjá körfuboltastrák. „En ég man þegar ég fór heim daginn eftir. Skömmin. Þú varst búin að syndga og brjóta gegn Guði og þú varst bara á leiðinni til helvítis. Og þetta er rosalega raunveruleg tilfinning,“ segir Sigríður. Hún spurði Guð í angist sinni hvað hún gæti mögulega gert til að bæta fyrir brot sín. Svarið var að finna í borginni Ocala í Flórída. Þangað flaug Sigríður skömmu síðar þar sem hún varði næstu sjö mánuðum við nám í Biblíuskóla. „Það var tími í skólanum sem hét How To Take a City. Hvernig ætlarðu að ná til samfélagsins eða borgarinnar? Ég sá alltaf fyrir mér miðstöð í miðbæ Reykjavíkur, sem væri svona upbeat, heillaði ungt fólk sem kæmi inn í stórum stíl og frelsaðist, það mundi síðan heilla eldra fólkið og þannig mundum við bara taka Ísland og segja öllum hvað Jesú væri æðislegur.“ Valin í landslið Guðs á Íslandi Hún er kölluð inn til pastorsins, leiðtogans Pastor Richards, þar sem hún er spurð hvað hún ætli að gera þegar heim er komið. „Maður finnur strax hvað leiðtogar eru miklu æðri en þú.“ „Og þá segir hann: Það eru ung hjón sem ætla að stofna svona kirkju í miðbæ Reykjavíkur. Myndir þú taka þátt í því? Og ég bara, já! Ég mundi sko gera það allan daginn. Vegna þess að pastor Richards sagði að ég væri manneskja í þetta þá leið mér eins og ég hafði verið valin í landslið Guðs á Íslandi,“ segir Sigríður. „Og í framhaldi af því lendi ég svo í Frelsinu - Kristilegri miðstöð, sem var náttúrulega bara algjör heilaþvottakirkja.“ Skráð hverjir komu og hverjir borguðu Frelsið var stofnað haustið 1995, í miðbæ Reykjavíkur, við Hlemm. Fyrst taldi söfnuðurinn einungis fimm meðlimi, Sigríði, bróður hennar, vin hennar og svo leiðtogarnir, hjónin Lindu Björk Magnúsdóttur og Hilmi Kristinsson. Söfuðurinn stækkaði hratt og taldi fljótlega nokkur hundruð manns. „Það voru samkomur oft í viku og endalaus vinna,” segir Sigríður. „Oft vorum við sótt heim til að vinna ef við vorum veik. Það var skráð í kladda hverjir komu hvenær. Og með tíundina, það var skráð hverjir borguðu. Ef þú borgaðir ekki, var hringt í þig.“ Hún undirstrikar að þetta hafi allt byrjað voðalega fallega. „En það er mjög fljótlega sem maður sér að leiðtogarnir fara að stíga inn í einhverskonar ofurvald. Ég man alltaf setninguna sem var hömruð í okkur: „Serve your leaders as on to God. Þjónaðu leiðtogunum eins og þeir séu Guð. Og þú settir bara samasemmerki þarna á milli.“ Trúa að þeir séu útvaldir af Guði Petra Hólmgrímsdóttir var með Sigríði í Frelsinu, en hún starfar nú sem sálfræðingur þar sem hún sérhæfir sig meðal annars í meðferð fólks sem hefur sagt skilið við sértrúarsöfnuði. Hún segir margt sameiginlegt með þeim, sem og þeim sem leiða söfnuðina. „Allir þessir leiðtogar trúa því að þeir séu með einhverskonar köllun frá Guði,“ segir hún. „Það á að fylgja þeim í einu og öllu. Þau voru leiðtogarnir, þau voru næst Guði.“ Petra byrjaði í Frelsinu þegar hún var 16 ára gömul og fór strax alla leið í safnaðarstarfinu. Hún starfar nú sem sálfræðingur og sérhæfir sig í meðferð fólks sem hefur verið beitt trúarofbeldi. Vísir/Adelina „Á þessum tíma fannst manni ekkert óeðlilegt að allar helgar færu í það að þjóna söfnuðinum. Að vera í trúboði í miðbænum langt fram á laugardagsmorgni og á sunnudögum var mætt snemma til að þrífa safnaðarheimilið og allt þetta.“ Leiðtogarnir völdu maka handa öðrum og bönnuðu kynlíf Reglurnar í Frelsinu voru mjög strangar á allan hátt, ekki síst hvað varðaði samskipti kynjanna. „Við völdum okkur ekki maka. Þau völdu maka. Þau stjórnuðu í rauninni öllu.“ segir Sigríður, sem fékk ekki að eignast maka á þeim sex árum sem hún var í söfnuðinum, frá 24 til 31 árs. Hún varð skotinn í karlmanni en fékk þau skilaboð að hann væri ekki maðurinn fyrir hana. „Þetta var bara andlegt ofbeldi. Þetta var aldrei einhver kærleikur og friður.“ Linda og Hilmir, hjónin sem leiddu söfnuðinn, komu Sigríði fyrir í raðhúsaíbúð með fimm öðrum stelpum úr söfnuðinum þar sem þær bjuggu saman og þjónuðu Guði. Samantha vakti upp löngu deyfðar tilfinningar Þó að það hafi ekki verið vel séð að vera heima veikur, þá kom sá dagur að Sigríður varð það lasin að hún fékk að vera heima. Hún kveikti á sjónvarpinu og við henni blasti sena úr Sex and the City þar sem stuðboltinn Samantha var við það að fá fullnægingu, eins og gerðist annað slagið í þáttunum. Sex and the City var á algjörum bannlista hjá meðlimum Frelsisins. „Einhvers staðar grófust upp þessar tilfinningar sem ég var búin að deyfa niður. Þetta er bara synd, að girnast, langa og hugsa um kynlíf. Ég veit ekki hvort ég á að segja þetta…“ segir Sigríður, gerir hlé á máli sínu, fær sér kaffisopa en heldur svo áfram. „Þetta bara lýsir svo ástandinu. Allavega, ég fór upp í herbergi. Ég veit ekki hvort ég eigi að bæta þessu við… ég tók með mér gúrku. Og ég lét eftir mér það sem vaknaði við að horfa á þetta litla brot, því svo slökkti ég því ég fattaði hvað var að gerast.“ Tilhugsunin um þetta atvik er vissulega fyndin í dag, en Sigríði leið mjög illa í margar vikur eftir þetta, uppfull af skömm. „Á sex árum stundaði ég tvisvar kynlíf með sjálfri mér, en í bæði skiptin með þeim kostnaði að líða svona hræðilega illa eftir það og uppfull af skömm.“ Vottar Jehóva, útskúfunin og óeðlilegu reglurnar Það gekk erfiðlega að finna viðmælendur fyrir Kompás sem höfðu verið í Vottum Jehóva, sem er einn fjölmennasti sértrúarsöfnuður á Íslandi. Einn sem við ræddum við hætti við viðtalið á síðustu stundu þar sem hann vildi ekki missa alveg samband við móður sína, sem er enn í söfnuðinum. Óvígð sambúð, sambönd samkynhneigðra og sambönd við fólk utan safnaðarins er bannað hjá Vottunum. Þau halda ekki jól, páska eða aðrar hátíðir, fagna ekki afmælisdögum, þiggja hvorki blóðgjöf við læknismeðferðir né gefa blóð. Þeir starfa ekki með öðrum trúfélögum og afneita þróunarkenningunni. Og Vottarnir ganga mun lengra en margir aðrir trúarhópar þegar kemur að félagslegri útskúfun. Bjarni Randver, trúarbragða- og guðfræðingur, segir að Vottar Jehóva hafi verið töluvert gagnrýndir um allan heim fyrir sýn sína á félagslegt taumhald og sérstaklega hvernig komið er fram við fyrrverandi meðlimi. Vísir/Adelina „Það eru allmargir á hverju ári, um allan heim, sem verður útskúfað með þessum hætti. Þá er lokað á öll tengsl við viðkomandi,“ segir Bjarni Randver, trúarbragðafræðingur. „Gagnrýnendurnir segja að viðkomandi einstaklingar sem snúa aftur gera það ekkert oft á trúarlegum forsendum, heldur til þess að endurnýja félagstengslin við sína nánustu sem höfðu rofnað með þessum hætti. Við börn, við maka, við foreldra, vini og þar fram eftir götunum.“ Við erum ekki sértrúarsöfnuður Á heimasíðu Vottanna er að finna ýmsan fróðleik um viðhorf þeirra, til dæmis hvers vegna þau séu ekki sértrúarsöfnuður. Rökin eru þau að þau iðki trú sem sé til góðs, enginn maður sé leiðtogi, heldur einungis Jesú Kristur og að ekki sé um að ræða ný trúarbrögð. Þá er undirstrikað að það standi í Biblíunni að kynferðislegur ólifnaður, á borð við samkynhneigð, sé rangur. Reglurnar eru margar og strangar og sérstaklega varðandi þau sem yfirgefa söfnuðinn. Mörgum finnst erfitt að fóta sig eftir að hafa hætt, eins og sumir sem Kompás ræddi við, en sumir snúa aftur. Reglulega andsetin af Jezebel-öndum Félagsleg útskúfun er þekkt aðferð innan sértrúarsafnaða til að koma í veg fyrir að fólk yfirgefi söfnuðinn. Frelsið var þar engin undantekning. „Það var rosaleg eineltisstefna þarna,“ segir Sigríður. „Það kom oft fyrir mig og aðra í kirkjunni, að allt í einu ættum við að vera uppfull af einhverjum Jezebel-öndum. Og þá mátti enginn tala við þig. Svo varstu farin að kunna á þetta að lokum og farin að fatta að maður væri örugglega með djöfla inni í sér því enginn var að tala við mann. Þetta er virkilega ljótt.“ Saga Sigríðar innan kristinna bókstafstrúarsafnaða á Íslandi er bæði löng og flókin. Hún lítur þó á þennan tíma sem lærdóm og er þakklát fyrir þann stað sem hún er á í dag. Vísir/Arnar Samkvæmt kristinni bókstafstrú leggjast andar ísraelsku drottningarinnar Jezebel yfirleitt á konur og gera þær vondar, slóttugar, syndugar og ekki síst uppfullar af kynferðislegum losta. „Ein stelpan sem bjó með mér átti einu sinni að hafa horft á pastorinn girndaraugum. Og henni var bara úthúðað og við allar stelpurnar sem bjuggum með henni gerðum það líka. Við bara ignoruðum hana.“ Þvottavélin bilaði því Guð vantaði tíundina Systir Sigríðar sá um bókhaldið í Frelsinu, en fljótlega eftir að hún byrjaði að spyrja spurninga um fjármálin bárust þau skilaboð að hún væri uppfull af djöflum og henni var útskúfað. Og þar sem er reykur, er yfirleitt eldur. Þó að tíundin næði langt, og laun safnaðarmeðlima sömuleiðis, þá var húsnæðið dýrt og pastors hjónin þurftu sitt salt í grautinn. Eins og með langflesta skaðlega sértrúarsöfnuði, voru fjármálin afskaplega vafasöm. „Einu sinni bilaði þvottavélin hjá okkur stelpunum í raðhúsinu. Og það átti að hafa verið bölvun útaf því að ein hafði ekki borgað tíundina,“ segir Sigríður. Petra tekur undir þetta. „Maður trúði því að ef þú borgaðir ekki tíund, tíu prósent af laununum þínum, þá mundi eitthvað slæmt gerast. Guð gæti ekki verndað þig.“ Þær gáfu báðar öll launin sín til safnaðarins og náðu þannig sjálfar ekki endum saman. „Oft sat maður heima há-grátandi, líðandi svo illa. Og ég man bara, ég fæ bara tárin í augun við að hugsa þetta, ég var svo einlæg gagnvart þessum Guði. Ég hugsaði bara: Getur verið að þetta eigi að vera svona?“ segir Sigríður. Notuðu sjálfsvíg sem peningamaskínu Það leið ekki langur tími þar til leiðtogarnir tóku að hugsa út fyrir kassann varðandi fjáröflun. Innan tíðar var stofnað félag innan Frelsisins sem fékk heitið Sókn gegn sjálfsvígum, sem átti eftir að verða stærsta peningamaskína safnaðarins. Þau fengu styrki frá ríkinu, seldu varning í Kolaportinu og söfnuðu helling frá almenningi. Þessi peningur fór í að borga leigu fyrir samkomusalinn og svo keyptu hjónin sér líka einbýlishús í Grafarvogi. „Það kom í ljós á endanum að kirkjan var í skuld upp á fleiri tugi milljóna sem meðlimir höfðu allir skrifað upp á. Hjónin voru alltaf stikkfrí,“ segir Sigríður. „Margir urðu bara gjaldþrota.“ Bjarni Randver undirstrikar að það er fjöldinn allur af dæmum þar sem fólk hefur farið fjárhagslega illa út úr samskiptum sínum við sértrúarsöfnuði. „Það eru leiðtogar, forystumenn, sem eru að misnota aðstöðu sína og misnota viðkomandi fólk,“ segir hann. „Það er enginn skortur á sakamálum.“ Kynferðisbrotin og kirkjurnar Dæmin um sakamál virðast einmitt vera endalaus innan trúarhópa og oft snúast þau um peninga, en svo ekki síður - um kynlíf og kynferðisbrot. Afhjúpun ítrekaðra kynferðisofbeldismála innan íslensku þjóðkirkjunnar sneri öllu á hvolf innan kirkjunnar og svo virðist sem mikið verk sé óunnið þar. Umfangsmesta dæmið er líklega kaþólska kirkjan, en tugir þúsunda kaþólskra presta um allan heim hafa verið ásakaðir um kynferðisbrot gegn börnum síðustu áratugi. Brotin voru hræðileg, gróf og ítrekuð og þögguð kerfisbundið niður um allan heim. Tugir þúsunda kaþólskra presta um allan heim hafa verið ásakaðir um alvarleg kynferðisbrot gegn börnum. Saga kaþólsku kirkjunnar á Íslandi er líka lituð ofbeldi og kúgun. Vísir/Arnar „Þetta er ekki bara bundið við rómversk-kaþólsku kirkjuna. Þetta er í fjölmörgum öðrum trúfélögum. Það er enginn skortur á kynferðisbrotum og kynferðisofbeldi, meira að segja gagnvart börnum,“ segir Bjarni Randver. Pastorsfrúin hélt við tvítugan strák í söfnuðinum Leiðtogar Frelsisins lögðu mikið upp úr ströngum kristilegum gildum varðandi samskipti kynjanna, eins og við höfum fengið að heyra, en það reyndist þeim erfitt að fylgja þeim sjálf. Og það varð þeim að lokum að falli. „Forstöðukonan, pastorsfrúin, fer að halda við tvítugan strák í kirkjunni og hélt því leyndu. Það gekk á í svolítinn tíma.“ „Svo spyrst það út og hennar innsti hringur fær að vita þetta og síðan er gripið til svaka aðgerða,“ segir Sigríður. Það var kallað á presta héðan og þaðan úr heiminum til að bjarga málum, hjónin voru send í endurhæfingu til Flórída og áttu síðan að afsala sér völdum yfir kirkjunni til að bjarga söfnuðinum. En þeim leist illa á það og kölluðu saman fund í Ísaksskóla, sem var nýjasti samkomustaðurinn sem var ekki búinn að úthýsa þeim fyrir að borga ekki leigu. „Þetta springur allt í loft upp og þennan dag gekk ég út úr kirkjunni. En þau ætluðu að reyna að halda starfinu áfram eftir þetta, en það voru bara svo fáir með þeim að það splúndraðist nokkrum dögum eftir þetta og kirkjan var lögð niður.“ Frelsið - Kristileg miðstöð var til húsa við Hverfisgötu fyrstu árin. Svo færði söfnuðurinn sig milli húsa og sala því það gekk erfiðlega að borga leigu á réttum tíma og halda utan um fjármálin. Vísir/Arnar Meðvirknin heldur fólki föstu Kynferðisofbeldið sem Steinunn Anna varð fyrir í Smárakirkju varð til þess að hún sagði loks skilið við söfnuðinn. Tengslanet hennar utan kirkjunnar var mjög laskað eftir tveggja ára einangrun. Hún segir meðvirkni líklega algengustu skýringuna á því að fólk haldist í skaðlegum sértrúarsöfnuðum. „Þau sem tjá sig verða útilokuð og þá standa þau svolítið ein. Ég held að fólk viti innst inni af öllu ofbeldinu og ranghugmyndunum sem geta verið þarna.“ Það kom sömuleiðis að því að Salómon hætti í Hvítasunnusöfnuðinum, þrátt fyrir mikinn þrýsting um að vera um kyrrt. Hann skammaðist sín fyrir dvöl sína gagnvart vinum sínum sem höfðu ekki verið í kirkjunni. „Ég byrja að drekka rosalega mikið í framhaldsskóla. Og ég held að þetta gerist fyrir rosa marga. Flestir sem ég þekki fara annaðhvort úr söfnuðum í eitthvað svona kukl, eða bara eiturlyf. Þér líður smá eins og þú sért freðinn þegar þú ert á samkomu. Og í dag er ég alltaf að leita að einhverri svipaðri tilfinningu, mínus lygar.“ „Manni líður eins og maður sé í algjörum költi þegar maður er þarna.“ Margra ára ferli að læra að lifa upp á nýtt Það tók mörg ár fyrir Sigríði að ná lífi sínu til baka. Hún þekkti engan utan safnaðirins, sambandið við fjölskyldu hennar var slitrótt og hún þurfti í raun að læra að lifa upp á nýtt. „Ég átti svo erfitt með að taka ákvörðun sjálf. Átti ég að fara til hægri eða vinstri? Þetta hefur alltaf verið ákveðið fyrir mig. Hvað ég á að gera, hvernig mér á að líða, hvað Biblían segir, hvað ég á að hugsa. Og ég þurfti bara þarna í fyrsta sinn í lífinu, 31 árs gömul, að hitta mig.“ Petra hefur gert tvær stórar rannsóknir á fólki sem hættir í bókstafstrúar- og sértrúarsöfnuðum. „Þau sem hætta í bókstafstrúarsöfnuðum eru líklegri til að vera minna ánægð með lífið sitt, þau sjá eftir fleiri hlutum, þau takast á við meiri depurðareinkenni, kvíða, áfallastreitueinkenni,” segir hún. „Öll þín fyrri hugmyndafræði um lífið og tilveruna er farin, hvað er rétt og hvað er rangt, hvaða lög finnst mér skemmtileg? Hvað finnst mér um samkynhneigð? Hvað finnst mér um áfengisdrykkju? Hvaða átt sem við viljum fara. Við þurfum að endurskilgreina okkur.“ Petra hefur rannsakað líðan fólks eftir að það hættir í sértrúarsöfnuðum og eiga fyrrverandi safnaðarmeðlimir það margir sameiginlegt að upplifa depurð, kvíða og óvissu eftir dvöl sína.Vísir/Adelina Þó að þrautaganga Sigríðar hafi verið löng og erfið, þá var hún þess virði. „Ég hef aldrei verið eins góð og ég er í dag. Ég var alltaf að leita að því í einhverjum Guði eða Jesú, sem er gott og vel. Ég trúi alveg að það er meira en bara við, ég er mjög andleg og hef alltaf verið. Það hefur ekkert með trúarbrögð að gera. En ég kom heim til mín og það var svo gott.“ Engin viðbrögð frá leiðtogum Við leituðum eftir viðbrögðum hjá forsvarsmönnum safnaðanna, en þar var fátt um svör. Enda hafa þessar hreyfingar átt undir högg að sækja undanfarinn áratug og safnaðarmeðlimum fækkað mikið. Nú eru einungis um þúsund manns samanlagt í Smárakirkju og Vottum Jehóva. Á sama tíma hefur fjöldi þeirra sem er utan trú- og lífsskoðunarfélaga tvöfaldast og telja nú um 30.000 manns. Í næsta Kompásþætti skoðum við aðra tegund sértrúarhópa og ræðum við fólk sem hefur slæma reynslu af andlegum athöfnum tengdum nýaldarhyggju og vill opna sig um ofbeldið í andlega heiminum. Vísir/Arnar Hugmyndir um himnaríki og helvíti þykja nokkuð gamaldags í dag. En vangaveltur um tilgang lífsins og leit að innri frið er fólki áfram ofarlega í huga. Í næsta Kompásþætti skoðum við sértrúarsöfnuði nútímans og hvað getur gerst þegar vanhæfir leiðtogar þvinga sínum hugmyndum á fólk í leit að hjálp.
Kompás Trúmál Tengdar fréttir Nýr ópíóíðafaraldur: „Í stöðugri lífshættu nokkrum sinnum á dag” Tuttugu og eitt þúsund Íslendingar eru langtímanotendur ávanabindandi lyfja. Lyfjatengd andlát eru algengust á Íslandi af Norðurlöndunum og hafa þau aldrei verið fleiri en á fyrri helming síðasta árs. 25. janúar 2022 07:00 Mest lesið Skutu niður eigin herþotu yfir Rauðahafi Erlent „Kurr í greininni í dag um að þetta skuli hvort tveggja vera á matseðlinum“ Innlent Yfirgaf jólatónleika í sjúkrabíl Innlent Sádar sagðir hafa sent fjórar viðvaranir Erlent Þakklæti, auðmýkt, rok og söngur ríkisstjórnarinnar Innlent Færeyingar fagna tvennum göngum Erlent Íslenskur skurðlæknir hlúir að fólki í Magdeburg Erlent Mest skreytta jólahúsið í Hveragerði Innlent Breytingar á ráðuneytum taka ekki gildi fyrr en í mars Innlent „Mjög þunn súpa, lítið í henni“ Innlent Fleiri fréttir „Afskaplega róleg“ nótt hjá lögreglumönnum Þakklæti, auðmýkt, rok og söngur ríkisstjórnarinnar „Kurr í greininni í dag um að þetta skuli hvort tveggja vera á matseðlinum“ Breytingar á ráðuneytum taka ekki gildi fyrr en í mars Mest skreytta jólahúsið í Hveragerði Yfirgaf jólatónleika í sjúkrabíl Ný ríkisstjórn Íslands: „Við erum orðnar vinkonur“ Allt um nýja ríkisstjórn Íslands í kvöldfréttum Krónan muni veikjast og allir halda að sér höndum Þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB eigi síðar en 2027 „Mjög þunn súpa, lítið í henni“ Ætla að fjölga lögreglumönnum verulega Vilja ekki plast eða vír á leiðisskreytingar í kirkjugörðum Þetta eru ráðherrar nýrrar ríkisstjórnar Allir punktar stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar Kallar eftir stillingu: „Menn eru saklausir uns sekt er sönnuð!“ Full tilhlökkunar að taka við nýju ráðuneyti „Það verður unnið fyrir heimilin í landinu“ Ný ríkisstjórn og áfall í Magdeburg „Ég held að þetta sé góður dagur fyrir þjóðina“ Áslaug Arna bjargaði kafnandi konu á veitingastað Tveir ungir á 140 kílómetra hraða Vaktin: Ný ríkisstjórn kynnt fyrir landanum Í eðli Sólveigar að vera með hnefann á lofti Hvetja Íslendinga á svæðinu til að láta vita af sér „Maður mun sakna þess mjög“ Engin breyting á hvalveiðileyfi því það sé glænýtt Ríkisstjórn sem þarfnist mikillar samhæfingar milli formannanna Einar baðst fyrirgefningar Áherslur nýrrar ríkisstjórnar, fordæmalausar aðgerðir og minningarathöfn Sjá meira
Nýr ópíóíðafaraldur: „Í stöðugri lífshættu nokkrum sinnum á dag” Tuttugu og eitt þúsund Íslendingar eru langtímanotendur ávanabindandi lyfja. Lyfjatengd andlát eru algengust á Íslandi af Norðurlöndunum og hafa þau aldrei verið fleiri en á fyrri helming síðasta árs. 25. janúar 2022 07:00