Í skýrslu tilnefningarnefndar Eimskips var lagt til að Baldvin, sem hefur verið stjórnarformaður flutningafélagsins í rúmlega þrjú ár, myndi taka sæti í varastjórn og að Óskar Magnússon tæki sæti hans í stjórninni.
„Þegar ég tók við sem framkvæmdastjóri Öldu Seafood fyrir rúmu ári íhugaði ég að gefa ekki kost mér í stjórn Eimskips vegna þess að maður getur ekki verið með 100 prósent fókus á öllum sviðum,“ segir Baldvin í samtali við Innherja.
„Það er heilmikil vinna að vera stjórnarformaður Eimskips og mér finnst því réttast að leyfa öðrum að taka við keflinu.“
Frá því að Baldvin var kjörinn stjórnarformaður Eimskips hefur félagið ráðist í miklar breytingar á rekstrinum sem hafa skilað sér í lægri kostnaðarhlutföllum og bættri afkomu.
„Eimskip er að uppskera fyrir þá miklu vinnu sem hefur átt sér stað á síðustu þremur árum. Það hefur orðið mikil kúltúrbreyting. Við hurfum frá vaxtastefnu og einbeittum okkur þess í stað að kjarnarekstrinum. Við lögðum áherslu á framlegð frekar en vöxt. Nú er félagið komið á góðan stað og þá skapast tækifæri til að stíga næstu skref,“ segir Baldvin.