Körfubolti

Helgi: Skemmtilegasta sem þú gerir sem íþróttamaður og keppnismaður er að spila leiki

Hjörvar Ólafsson skrifar
Helgi Már Magnússon, þjálfari KR.
Helgi Már Magnússon, þjálfari KR. Vísir/Bára

Helgi Már Magnússon, þjálfari KR-inga í Subway-deild karla í körfubolta, var eðlilega ánægður með sigur sinna manna gegn ÍR í kvöld.

„Ég er sérstaklega ánægður með hvernig við útfærðum varnarleikinn okkar og náðum að þvinga þá í slæm skot. Þá er ég einnig sáttur við að byrja þennan marsmánuð, þar sem það verður nóg að gera, með sigri,” sagði Helgi Már Magnússon, þjálfari KR eftir góðan 93-80 sigur liðsins gegn ÍR í Subway-deild karla í körfubolta í DHL-höllinni í kvöld.

„Við munum spila sjö leiki í mars og við stefnum að því að klífa upp töfluna. Þetta hefur verið skrýtið tímabil og við eigum leiki inni sem geta komið okkur í góða stöðu. Nú eru sex leikir eftir á skömmum tíma sem er bara frábært.“

„Það skemmtilegasta sem þú gerir sem íþróttamaður og keppnismaður er að spila leiki og það verður nóg af því hjá okkur í mars. Þetta var fín byrjun á törninni,” sagði Helgi Már enn fremur.

 KR náði mest 30 stiga forskoti í leiknum en ÍR-ingar náðu að laga stöðuna undir lok fjórða leikhluta og koma munum niður í 13 stig. Af þeim sökum er ÍR með betri stöðu í innbyrðisviðureignum liðanna.

Eftir þennan sigur er hins vegar KR í áttunda sæti deildarinnar með 16 stig en ÍR í því níunda með 14 stig.

„Að mínu mati er bara gott að hafa náð góðri spilamennsku og í sigur í þessum leik. Hitt er bara aukaatriði að ÍR sé með betri stöðu á okkur,” sagði þjálfari KR-inga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×