Í tillögu stjórnar um kaupréttarkerfi fyrir framkvæmdastjórn og aðra lykilstarfsmenn kemur fram að stjórn verði heimilt að úthluta allt að 900 milljónum hluta á næstu þremur árum til lykilstarfsmanna. Stjórninni er að hámarki heimilt að úthluta 250 milljónum hluta á þessu ári, að því er segir í tilkynningu félagsins.
Á gengi dagsins í dag er virði 900 hluta um 1,7 milljarður króna.
Nýting kauprétta getur í fyrsta lagi átt sér stað þremur árum frá úthlutun og er bundin við að viðkomandi starfsmenn verði enn í vinnu hjá félaginu. Virði kauprétta sem úthlutað er árlega til hvers starfsmanns getur að hámarki numið 25 prósent af árslaunum samkvæmt Black Scholes reikningsmódelinu.
Við nýtingu kaupréttar er miðað við hlutabréfagengi Icelandair í lok þess dags sem kauprétturinn var veittur og við það bætast 3 prósenta árlegir vextir. Úthlutun færi fram árlega og væri háð frammistöðu viðkomandi starfsmanns á árinu á undan.
Aðalfundur samþykkti jafnframt tillögu um að stjórn verði heimilt að auka hlutafé til að úthluta kaupréttarhlutum.
Heimila kaup á eigin hlutum
Aðalfundur samþykkti einnig tillögu stjórnar um að heimila stjórn kaup á allt að tíu prósent hlutafjár í Icelandair Group.
Þá var ársreikningur samþykktur og stjórn kjörin. Einungis fimm buðu sig fram til stjórnar og var hún því sjálfkjörin. Stjórnina skipa:
- Guðmundur Hafsteinsson
- John F. Thomas
- Matthew Evans
- Nina Jonsson
- Svafa Grönfeldt
- Bogi Nils Bogason
Guðmundur Hafsteinsson var kjörinn stjórnarformaður og Nina Jonsson varaformaður á stjórnarfundi að aðalfundi loknum.
Þá voru þau Helga Árnadóttir og Hjörleifur Pálsson sjálfkjörin í tilnefningarnefnd.