„Enn þann dag í dag á ég erfitt með að vera í sterku ljósi og hljóð geta líka verið erfið. Þetta er því búið að vera basl,“ segir Adam í viðtali sem sjá má hér að neðan.
Adam er annar markvörður handknattleiksliðs Stjörnunnar sem glímt hefur við afleiðingar höfuðhöggs í vetur því eins og fjallað var um á Vísi fyrr í vikunni er Brynjar Darri Baldursson hættur í handbolta eftir skot í höfuðið í leik gegn KA.
Adam fékk sitt högg í Danmörku í byrjun nóvember og varð svo ljóst í næsta leik með Stjörnunni, gegn Gróttu 10. nóvember, að ekki væri allt með felldu:
„Ég reyndi að klára leikinn og talaði svo við sjúkraþjálfara eftir það, og svo kom í ljós í tékki að jafnvægisskynið væri alveg farið og að þetta liti ekki nógu vel út
Þetta er nú ekki í fyrsta skiptið og hundrað prósent ekki það síðasta [sem Adam fær skot í höfuðið]. En þetta er alvarlegasta skotið sem maður hefur fengið í sig, það er á hreinu,“ segir Adam sem er í endurhæfingu en veit lítið um það hvenær hann gæti spilað aftur handboltaleik.
Prófin koma enn illa út
„Þetta er búið að vera þreytt. Fyrstu mánuðirnir voru erfiðastir, þegar maður mátti ekki gera neitt. Varla horfa á sjónvarpið. Maður lá bara uppi í rúmi með dregið fyrir, ljósfælinn og helvíti þunglyndur næstum því. Eftir að maður gat byrjað að æfa hefur þetta gengið betur og svo þarf maður bara að vera duglegur og vera tilbúinn þegar kallið kemur,“ segir Adam sem er farinn að geta mætt í ræktina og vonast til að mega byrja að æfa handbolta eftir 2-3 vikur, með það í huga að spila með Stjörnunni í úrslitakeppni Olís-deildarinnar í vor.
„Það er enn eitthvað í land. Ég er enn að koma illa út úr augnatestum og þannig. Það er því enn eitthvað í að ég byrji að spila. Ég fæ aldrei nákvæma dagsetningu þannig að ég tek bara einn dag í einu,“ segir þessi 19 ára gamli markvörður.