Erlent

Tölvuárás á NATO-ríki gæti virkjað fimmtu greinina

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Jens Stoltenberg er framkvæmdastjóri NATO.
Jens Stoltenberg er framkvæmdastjóri NATO. AP Photo/Virginia Mayo

Verði gerð tölvuárás á eitthvert af ríkjum Atlantshafsbandalagsins gæti slík árás gert það að verkum að fimmta grein Atlantshafssáttmálans verði virkjuð.

Þetta er haft eftir ónafngreindum embættismanni NATO á vef Reuters, þar hann segir að NATO-ríkin gætu í ákveðnum tilfellum litið á umfangsmikla og alvarlega tölvuárás á NATO-ríki sem ígildi vopnaðrar árásar.

Segja má að fimmta grein Atlantshafssáttmálans, stofnsáttmála NATO, sé hornsteinn NATO. Greinin kveður á um að aðilar sáttmálans séu sammála um að ef vopnuð árás sé gerð á eitt eða fleiri aðildaríki sé það ígildi árásar á þau öll.

Virkji NATO-ríki fimmtu greinina eru önnur ríki skuldbundin til þess að koma því ríki til aðstoðar á þann hátt sem þau telja við hæfi.

Fjallað var um tölvuárásir í tengslum við átökin í Úkraínu í Bítinu í morgun.

Vegna innrásar Rússa í Úkraínu hafa Bretar og Bandaríkjamenn varað við því að mögulegar tölvuárásir á Úkraínu geti smitað út frá sér til ríkja sem eiga aðild að NATO.

Í frétt Reuters er einnig rætt við Mark Werner, formann leyniþjónustunefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings, sem segir að ekki sé búið að negla niður nákvæmlega hvernig NATO muni bregðast við, verði umfangsmikil tölvuárás gerð.

„Þetta hefur verið til umræðu í um áratug em við höfum ekki komist að algildri niðurstöðu um hver niðurstaðan er,“ sagði Werner sem sagði málið vera á gráu svæði.

Nefndi hann dæmi um möguleika á tölvuárás á Úkraínu sem myndi smitast yfir til Póllands, aðildarríki NATO, þar sem rafmagnslaust yrði á spítölum eða umferðarljós gerð óvirk, sem myndi verða til þess að bandarískir hermenn staðsettir í Póllandi myndu verða fyrir áhrifum.

Þá sagði hann Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra í NATO ekki hafa gefið Rússum til kynna hvers konar tölvuárás myndi fara yfir strikið.

Guðmundur Arnar Sigmundsson sviðsstjóri netöryggissveitarinnar CERT-IS ræddi við Reykjavík síðdegis um mögulegar netárásir Rússa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×