Innlent

Húsnæðismál standi ekki í vegi fyrir móttöku flóttafólks

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. vísir/Egill

Forsætisráðherra segir að húsnæðismál Útlendingastofnunar muni ekki standa í vegi fyrir móttöku flóttafólks frá Úkraínu. Undirbúningur að því sé nú þegar hafinn.

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, sagði í viðtali við fréttastofu fyrir helgi að „hreint neyðarástand ríki hjá Útlendingastofnun“.  Flóttamenn á landinu sem neiti að undirgangast PCR-próf til þess að unnt sé að vísa því úr landi „teppi húsnæði og aðstöðu“ fyrir aðra sem stjórnvöld vilji taka á móti.

Ummælin hafa farið öfugt ofan í marga og vakið hörð viðbrögð á samfélagsmiðlum. 

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar, sagði í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag að málflutningur dómsmálaráðherra væri óboðlegur og spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra hvort um væri að ræða stefnu ríkisstjórnarinnar.

Katrín svaraði því til að um væri að ræða fólk í mjög viðkvæmri stöðu. Það skipti máli hvernig talað væri um þá hópa.

Húsnæðismál Útlendingastofnunar muni ekki standa í vegi fyrir móttöku flóttafólks frá Úkraínu. Katrín vísaði til þess félagsmálaráðherra hafi þegar átt fund með flóttamannanefnd og að hafinn væri undirbúningur þess að taka við fólki.

Katrín benti á að um það bil hálf milljón væri á flótta vegna ástandsins og að fjöldinn gæti farið upp í fjórar til fimm milljónir. Vafalaust vilji stór hluti þeirra snúa aftur til heimalandsins þegar aðstæður leyfa og því þurfi bæði að huga að því að taka á móti fólki til skemmri og lengri tíma.

„Ég leyfi mér að rifja hér upp að það er ekki langt um liðið síðan ástand skapaðist í Afganistan og ríkisstjórn Íslands tók þá ákvörðun fyrst að taka á móti tilteknum fjölda fólks og tók svo nýja ákvörðun um að taka á móti auknum fjölda fólks frá Afganistan vegna þess að okkur fannst mikilvægt að axla ábyrgð í samfélagi þjóðanna. Og tókum þá hlutfallslega í raun og veru á móti fleirum en Norðurlöndin við það tækifæri. Þannig að þegar við lítum til þess sem gert hefur verið þá höfum við ekki skorast undan ábyrgð í þessu,“ sagði Katrín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×