Skoðun

Félagslegt húsnæði og biðlistarnir í Hafnarfirði

Árni Rúnar Þorvaldsson skrifar

Það er grundvallarskylda sveitarfélaga að sjá fólki fyrir húsnæði sem af einhverjum ástæðum þarf á stuðningi að halda í þeim efnum. Árið 2020 voru þrjár íbúðir keyptar inn í félagslega íbúðakerfið og 6 í fyrra. Slæleg frammistaða bæjarins í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á undanförnum átta árum undir stjórn Sjálfstæðisflokksins spilar að einhverju leyti þarna inn í því íbúðirnar hafa hreinlega ekki verið til í bænum. Hér er því sannarlega verk að vinna á næsta kjörtímabili.

Barátta um grundvallarmannréttindi

Margt fólk í mjög erfiðum aðstæðum er á biðlista eftir félagslegu húsnæði og þarfnast úrlausnar sem fyrst. Það býr í foreldrahúsum, ósamþykktum íbúðum í iðnaðarhverfum, í leiguíbúðum þar sem 60-70% af ráðstöfunartekjum þess fer í leiguna og í íbúðum sem mæta ekki þörfum þess. Í Kastljósi í gærkvöldi sáum við umfjöllun um síðastnefnda dæmið. Þar var talað við öryrkja með lögheimili í Hafnarfirði sem er á biðlista eftir húsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ. Hann veit ekkert um það hvenær röðin kemur að honum. Eftir að hafa upplifað gríðarlegt áfall vegna veikinda, eins og viðmælandi Kastljóssins í gær, þá er ömurlegt til þess að vita að við taki barátta við kerfið um grundvallarmannréttindi. Þetta er óásættanleg staða með öllu.

Bæjarstjóri skilar auðu í umræðunni

Í umræðum í Kastljósi ræddu formaður Öryrkjabandalagsins og bæjarstjóri Hafnarfjarðar um búsetuúrræði fyrir fatlað fólk og félagslegt húsnæði. Í máli bæjarstjóra kom fram að hann telur það stórkostlegt átak af hálfu bæjarins að hafa bætt 40 íbúðum inn í félagslega íbúðarkerfið á síðustu sjö árum, eða sem nemur tæpum 6 íbúðum á ári að meðaltali. Niðurstaðan af þessu stórkostlega átaki bæjarstjóra er hins vegar sú að um 100 einstaklingar og fjölskyldur eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði og stór hluti þeirra er í brýnni þörf, líkt og við sáum dæmi um í Kastljósi gærkvöldsins.

Bæjarstjóri ver stefnu Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ og á Seltjarnarnesi

Það er því deginum ljósara að það hefur ekki verið nóg gert undanfarin ár í Hafnarfirði. Hér tala tölurnar sínu máli um frammistöðu Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði í þessum mikilvæga málaflokki. Út yfir tók þó þegar bæjarstjóri Hafnarfjarðar varði sérstaklega frammistöðu Garðabæjar og Seltjarnarness í þessum málum því að í þeim sveitarfélögum birtist stefna Sjálfstæðisflokksins einmitt með hvað skýrustum hætti. Stefna sem felst í því að lækka skatta og álögur á hátekjufólkið og efnamesta fólkið. Það kemur svo niður á þjónustu sveitarfélaganna við þá hópa sem helst þurfa á henni að halda. Og vandanum er svo velt yfir á nærliggjandi sveitarfélög. Þetta gat bæjarstjóri Hafnarfjarðar ekki gagnrýnt í Kastljósinu í gær, enda um stefnu Sjálfstæðisflokksins að ræða.

Rjúfum kyrrstöðuna

Megin niðurstaðan af umræðum Kastljóssins í gær er því sú að Hafnarfjörður, undir forystu Sjálfstæðisflokksins, hefur engan veginn staðið sig í þessum málefnum. Þörf er á stórkostlegu átaki á næsta kjörtímabili til að fjölga íbúðum í félagslega íbúðarkerfinu til að stytta biðlistana og bið fólks á þeim. Þörf er á nýjum hugmyndum sem bornar eru uppi af fólki sem hefur raunverulegan áhuga á málinu og veit hversu mikilvæg húsnæðismálin eru fyrir fólk í erfiðum aðstæðum. Samfylkingin mun setja húsnæðismál í víðu samhengi í algjöran forgang á næsta kjörtímabili og rjúfa þá kyrrstöðu sem einkennt hefur málaflokkinn undanfarin ár undir forystu Sjálfstæðisflokksins í bænum.

Höfundur er varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og fulltrúi flokksins í fjölskylduráði.




Skoðun

Sjá meira


×