Umræðan

Ærandi þögn um ofríki í Kanada

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar

Krafa vörubílstjóranna í Kanada er ekki fjarstæðukennd. Þeir vilja fyrst og fremst atvinnufrelsi til að sjá fyrir sér og sínum. Þeir krefjast þess að bólusetning með lyfi sem fékk markaðsleyfi á mettíma sé ekki eiginlegt skilyrði fyrir því að þeir haldi starfi, og krafan er sett fram fram nú þegar tilkoma Omicron-afbrigðsins hefur dregið allverulega úr skaðsemi faraldursins. Fjöldi Kanadabúa hefur fylkt sér að baki Frelsislestinni svokölluðu og nú snúast mótmælin almennt um bólusetningarskyldu og sóttvarnaaðgerðir.

En Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, er ekki skemmt. Um þremur vikum eftir að mótmælin hófust setti Trudeau, sem er formaður Frjálslynda flokksins og í senn aðdáandi stjórnarfarsins í Kína að eigin sögn, neyðarlög til þess að kveða mótmælin niður. Samkvæmt neyðarlögunum geta mótmælendur átt von á því að vörubílar þeirra verði gerðir upptækir og bankareikningar frystir. Lögreglan í Ottawa hefur lýst því opinberlega yfir að hún muni hundelta alla sem tengjast mótmælunum með einhverjum hætti. Fjársektir og ákærur bíða þeirra.

Þrátt fyrir að harðstjórnartilburðir Trudeaus blasi við umheiminum heyrist hvorki hósti né stuna frá íslenskum ráðamönnum.

Þetta er ekki tæmandi lýsing á framgöngu kanadískra stjórnvalda gagnvart mótmælendum, þar er af nægu að taka. En þrátt fyrir að harðstjórnartilburðir Trudeaus blasi við umheiminum heyrist hvorki hósti né stuna frá íslenskum ráðamönnum. Enginn ráðherra eða þingmaður hefur gert athugasemd við það að vestrænt ríki setji neyðarlög til að brjóta friðsöm mótmæli á bak aftur. Hvað veldur?

Íslenskir ráðamenn hafa sannarlega látið sig varða mannréttindamál í Norður-Ameríku. Ekki þarf að leita lengra aftur en til sumarsins 2020 þegar mótmælabylgja gekk yfir Bandaríkin í kjölfar morðsins á George Floyd. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þá sitjandi sem dómsmálaráðherra, lýsti yfir eindregnum stuðningi sínum við mótmælendur jafnvel þó að víða hefðu brotist út óeirðir sem leiddu til gífurlegs tjóns og dauðsfalla. Ráðherra hefur enn ekki fundið ástæðu til að styðja vörubílstjórana með sama hætti.

Ef til vill þykir málstaður þeirra ekki nógu fínn. Ólíkt BLM-hreyfingunni fær Frelsislestin engan stuðning frá stjórnmálaleiðtogum eða alþjóðlegum stórfyrirtækjum. Þess í stað hafa vörubílstjórarnir reitt sig á stuðning frá venjulegu fólki.

Atburðarás síðustu vikna er áminning um það hversu brothætt frjálslynda lýðræðissamfélagið er þegar á reynir.

Í fyrradag var flokkssystir hennar, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, í dauðafæri til að koma áhyggjum sínum, ef einhverjar eru, á framfæri við kanadísk stjórnvöld þegar hún hitti fyrir þarlendan utanríkisráðherra í München. Samkvæmt færslu ráðherra á samfélagsmiðlum snerust samræðurnar þó aðallega um vinabönd þjóðanna tveggja og „mikilvægi þess að standa saman á tímum vaxandi óvissu“. Í ljósi þess sem á undan hefur gengið hefði verið hyggilegra að sleppa færslunni.

Ekki verður betur séð en að á síðustu árum hafi utanríkisstefna íslenskra stjórnvalda snúist um að elta aðrar þjóðir í því að fordæma mannréttindabrot í framandi löndum. Að gefa út innantómar yfirlýsingar sem engu máli skipta. Þessi stefna rímar illa við það sem var höggvið í stein við þinghúsið í Vilníus: „Til Íslands, sem þorði þegar aðrir þögðu.“

Það er ekki við hæfi, svo það sé tekið fram, að leggja það sem gengur á í Kanada að jöfnu við raunir Litáa undir stjórn Sovétríkjanna. Atburðarás síðustu vikna er engu að síður söguleg og hún er áminning um það hversu brothætt frjálslynda lýðræðissamfélagið er þegar á reynir. Stjórnmálamenn sem gefa sig út fyrir að vera talsmenn frjálslyndis, jafnt ráðherrar sem þingmenn, geta því ekki látið hjá líða að tala gegn ofríkinu í Kanada. Það er ekki boðlegt að skila auðu.

Höfundur er viðskiptablaðamaður á Innherja.




Umræðan

Sjá meira


×