Erlent

Skírði sóknarbörnin vitlaust í sextán ár

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Séra Andres Arango með einu sóknarbarna sinna í Jórdan ánni í Ísrael.
Séra Andres Arango með einu sóknarbarna sinna í Jórdan ánni í Ísrael. AP/Andrea Reyes

Kaþólskur prestur í Arizona í Bandaríkjunum gerði reginmistök við störf sín í sextán ár. Hann skírði sóknarbörnin vitlaust og telur kaþólska kirkjan nú að allir þeir sem hann skírði séu ekki skírðir í Guðs augum.

Kaþólskir eftirlitsmenn telja að þúsundir Arizonabúa hafi verið skírðir vitlaust þar sem presturinn fór með vitlaust mál við skírnarathöfnina og segja alla þá, sem presturinn skírði, þurfa að mæta aftur til kirkju til að láta endurskíra sig. Þá vilja mörg sóknarbarna hafa vaðið fyrir neðan sig og láta endurtaka fleiri athafnir, þar á meðal hjónavígslur.

Presturinn Andres Arango starfaði við sömu kirkjuna í Arizona í sextán ár en mistök hans fólust í vitlausu orðalagi. Í stað þess að segja „Ég skíri þig í nafni föðurins, sonarins og heilags anda,“ sagði hann „Við skírum þig“ í upphafi bænarinnar. Vatíkanið úrskurðaði það árið 2020 að munurinn sé mjög mikilvægur í guðfræðilegum skilningi þar sem sóknin, „við“, er ekki að skíra manninn heldur Jesús kristur, „ég“, í gegn um prestinn. 

Sóknarbörn sem Arango skírði þurfa að láta skíra sig að nýju svo þau hafi vaðið fyrir neðan sig.AP Photo/Ross D. Franklin

Þrátt fyrir þessi mistök voru sóknarbörn hans mjög ánægð með hans störf og segja hann ástæðuna fyrir því að fjölgaði í sókninni. Arango var prestur í miðbæ Phoenix frá árinu 2005 en hann settist nýlega í helgan stein, þann 1. febrúar síðastliðinn. 

Biskupsdæmið í Phoenix vinnur nú að því að leita uppi fólkið sem Arango skírði svo hægt sé að endurskíra það. Arango segir í yfirlýsingu sem birt var á vefsíðu biskupsdæmisins að honum þætti miður að hann hafi gert mistök við skírnir undanfarin sextán ár. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×