Í Íslandi í dag í gærkvöldi kynntist Sindri Sindrason Ágústi Beinteini Árnasyni, betur þekktur sem Gústi B, refnum hans Gústa junior og fengu áhorfendur að sjá skemmtileg TikTok myndböndin sem eru að slá í gegn hjá unga fólkinu og öllum hinum líka.
„Ég gef bara út íslenskt efni og er að gefa út efni á hverjum einasta degi. Núna segja nýjustu tölur að um tuttugu þúsund krakkar kíki inn á síðuna mína á hverjum degi,“ segir Gústi en móðir hans starfar sem íslenskukennari. „Mamma mín myndi aldrei leyfa mér að tala ensku.“
Gústi segist hafa fengið leiklistarbakteríuna frá bróður sínum Árna Beinteini sem er að gera það gott í leiklistinni hér á landi.
„Ég byrjaði snemma að koma fram á sviði, taka upp lög með cameru hérna heima. Svo fór þetta út í samfélagsmiðlana því þeir sprungu gjörsamlega út fyrir nokkrum árum og hér er ég í dag.“
Gústi útskrifaðist úr MR fyrir um einu ári. Hann skráði sig í viðskiptafræði en hætti fljótlega þar sem TikTok tók einfaldlega of mikinn tíma. Hann þénar vel á miðlinum. En hver er markhópur Gústa?
„Þetta byrjaði sem 12-16 ára en núna eru svo rosalega margir komnir inn á TikTok, það eru allir og amma þeirra inn á þessu forriti. Stundum er ég til að mynda úti í búð og það kemur kannski fimmtug kona að mér og segist vera horfa á mig á TikTok. En það eru samt alltaf krakkarnir sem stjórna því hvað verður vinsælt.“
Gústi vakti mikla athygli fyrir ekki svo löngu þegar hann átti refinn Gústa junior.
„Ég elska refinn og vil halda honum öruggum og þegar það var bankað hérna upp á og mér hótað sektum ef ég myndi ekki skila honum, þá stóð ég með refnum og hugsaði ekki um minn eigin fjárhag. Ég réði mér lögfræðing til að passa sem best upp á refinn. Ætli þetta hafi ekki byrjað sem markaðstönt en fór síðan út í meiri væntumþykju og vináttu.“
Hér að neðan má sjá nokkur myndbönd frá Gústa af TikTok.