Innlent

Gular viðvaranir í gildi fyrir stóran hluta landsins

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Eins og sakir standa eru stórir hlutar landsins fagurgulir en vert er að fylgjast með þróun mála á vefsíðu Veðurstofunnar.
Eins og sakir standa eru stórir hlutar landsins fagurgulir en vert er að fylgjast með þróun mála á vefsíðu Veðurstofunnar. Veðurstofa Íslands

Snjó hefur kyngt niður á höfuðborgarsvæðinu í nótt og gul viðvörun verið gefin út fyrir sunnan- og vestanvert landið, auk miðhálendisins. Á höfuðborgarsvæðinu gildir viðvörunin frá klukkan 15 í dag og fram á morgun en spáð er suðaustan hvassviðri, snjókomu og slyddu á köflum og talsverðum skafrenningi, einkum í efri byggðum.

Á Suðurlandi gildir viðvörunin frá klukkan 16 í dag og fram til klukkan 3 í nótt. Þar gengur í suðaustan hvassviðri eða storm, 15 til 23 m/s og enn hvassari á sumum stöðum. Gera má ráð fyrir snjókomu á köflum en jafnvel slyddu eða rigningu við ströndina. Viðbúið er að það verði talsverður skafrenningur, einkum þar sem snjórinn blotnar lítið.

Á Suðausturlandi er gul viðvörun í gildi frá því klukkan 20 í kvöld og til klukkan 17 á morgun. Þar er spáð suðaustan stormi með slyddu eða snjókomu en rigningu við ströndina. Mun hægari og úrkomuminna austantil fram eftir nóttu. Þá mun lægja töluvert og verða úrkomulítið vestantil fyrir hádegi.

Gular viðvaranir eru einnig í gildi fyrir miðhálendið, Faxaflóa og Breiðafjörð.

Sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×