Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í kvöld tvo menn í gæsluvarðhald að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna skotárásar í miðborginn laust fyrir klukkan eitt í nótt.
Einn þeirra hafði skotið annan ungan mann í brjóstið en hinn særði var fluttur á sjúkrahús og er talinn vera kominn úr bráðri lífshættu.
Að því er kemur fram í tilkynningu frá lögreglu var annar þeirra úrskurðaður í varðhald í tæpar fjórar vikur, til 11. mars, og hinn til 21. febrúar.
Lögregla handtók þrjá unga karlmenn í tengslum við málið en þeim þriðja hefur verið sleppt úr haldi. Þeir eru allir fæddir á árunum 2002 og 2003.
Lögregla kveðst ekki geta veitt frekari upplýsingar um málið.