Landfyllingin er liður í öðrum áfanga hins svokallaða Nýja Skerjafjarðar, sem er verkefni borgarinnar um að stækka Skerjafjörð verulega og bæta þar við 1.300 nýjum íbúðum.
Verið er að vinna umhverfismat fyrir framkvæmd landfyllingarinnar.

Og þetta eru náttúvuverndarsinnar ekki sáttir með því hér í fjörunni má finna einstakt fuglalíf.
Ólafur Nielsen er fuglafræðingur og formaður Fuglaverndar. Honum líst skelfilega á þessi áform borgarinnar.
„Það er verið að eyðileggja víkina og tortíma því lífríki sem er hérna. Það er eitt af því sem að gerir þetta útivistarsvæði sem að fjaran er skemmtilegt það er það fuglalíf sem er hérna, sem við njótum þegar við göngum stíginn,“ segir Ólafur.
Í fjörunni halda sig hinar ýmsu fuglategundir; æðarfugl, sendlingar, tildrur, stelkar og tjaldar. Þá er fjaran eini staðurinn innan Reykjavíkur þar sem finna má margæs.

„Allir þessir fjörufuglar hverfa að sjálfsögðu. Þeir eru háðir þessu búsvæði sem fjaran er. Það er verið að eyðileggja búsvæði fuglanna og hrekja þá í burtu. Það er alger óþarfi að mínu mati,“ segir Ólafur.
Lag að komast að hjarta stjórnmálamanna rétt fyrir kosningar
Íbúar Skerjafjarðar eru margir mjög á móti landfyllingunni og nú hefur á annað hundrað manns sett nafn sitt á undirskriftalista til að mótmæla henni undir yfirskriftinni Friðum fjöruna.
Jón Þór Víglundsson er einn íbúanna sem stendur fyrir undirskriftasöfnuninni.
„Við erum bara rétt að byrja. Nú er lag að komast að hjarta stjórnmálamannsins þegar hann er að sækjast eftir endurkjöri,“ segir Jón.

„Allir flokkarnir fjórir sem að mynda meirihluta í Reykjavík núna hafa það á sinni grunnstefnuskrá að vernda náttúruna. Við höfum rakið tækifæri til þess núna.“
Næturgali keisarans í Kína
Borgin hefur þó boðað mótvægisaðgerðir og sagst ætla að gera tilraun til að endurskapa eins fjöru við landfyllinguna.
Ólafur efast um að það gangi eftir og segir málið minna sig á ævintýri H.C. Andersen um næturgala keisarans í Kína.
„Hann var með næturgala sem honum hugnaðist ekki í lokin og lét byggja fyrir sig upptrekktan næturgala sem átti að koma í staðinn fyrir þann náttúrulega. Við erum með djásn hérna. Þeir ætla að eyðileggja það og síðan á að byggja nýtt,“ segir Ólafur.