Fatamerkið sem um ræðir er belgískt og heitir Suspicious Antwerp.
Það hefur upp á síðkastið verið að hasla sér völl innan tískuheimsins og er hve vinsælast fyrir höfuðkúpumerki sitt.
Það hefur á síðustu mánuðum fengið hina ýmsu áhrifavalda til að auglýsa vörur sínar á samfélagsmiðlinum Instagram en sá stærsti þeirra er vafalaust stórstjarnan Kylie Jenner.
Átta áhrifavaldar í hópnum
Í svari fyrirtækisins við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að tíu manna hópur á vegum þess hafi verið staddur hér á landi til að taka upp efni í auglýsingaherferð í íslenskri náttúru.
Hann samanstóð af tveimur starfsmönnum fyrirtækisins og átta áhrifavöldum víðs vegar að úr heiminum.
Þrír úr hópnum fóru síðan í flugið í flugvélinni TF-ABB sem fórst í Þingvallavatni síðasta fimmtudag.
Eins og greint hefur verið frá var flugmaður hennar Haraldur Diego, formaður hagsmunafélags flugmanna og flugvélaeigenda á Íslandi. Hann var 50 ára gamall.
Um borð með honum voru tveir áhrifavaldar; Bandaríkjamaðurinn Josh Neuman, sem var ekki nema 22 ára gamall, og Nicola Bellavia, 32 ára gamall Belgi.
Með þeim var einn af starfsmönnum fatafyrirtækisins, Tim Alings, 27 ára gamall Hollendingur, sem starfaði að markaðssetningu fyrir fyrirtækið.
Ná hinum látnu ekki upp strax
Allt bendir til að allir hinir látnu hafi fundist skammt frá flugvélarflakinu á botni Þingvallavatns seinni partinn í gær en ekki hefur verið hægt að kafa eftir þeim vegna veðurskilyrða.
Á myndbandinu hér að neðan frá Hjálparsveit Skáta í Kópavogi má sjá hvernig aðstæður voru við leit á vatninu í gær:
Ekki verður hægt að sækja hina látnu fyrr en veður og aðstæður batna á svæðinu, sem verður ólíklega fyrr en í fyrsta lagi á fimmtudag.