Skoðun

Hvað með Kjalarnesið?

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

„Strætó er annt um íbúa á Kjalarnesi og möguleika þeirra til að komast á milli staða,“ sagði í færslu Strætó bs. í janúar 2016 en því miður er sannleikurinn sá að íbúar á Kjalarnesi hafa ekki orðið varir við umrædda umhyggju Strætó á þeim sex árum síðan færslan var skrifuð. Íbúar Kjalarness, sem eru að sjálfsögðu Reykvíkingar, eru orðnir langþreyttir á því að vera settir í flokk með sveitarfélögum á landsbyggðinni og krefjast þess að fá sömu almenningssamgöngur og boðið er upp á í öðrum hverfum Reykjavíkur, með sömu samtengingum á milli hverfa.

Auðvelt er að taka undir sjónarmið íbúa á Kjalarnesi sem í nafni íbúaráðs sendu Vegagerðinni bréf í upphafi árs og nánast grátbáðu um að tekið yrði tillit til óska ráðsins um fjölgun stoppistöðva Strætó en fyrir liggur að stoppistöðvum mun fækka úr þremur í eina vegna breytinga á Vesturlandsvegi við tvöföldun hans. „Í því samfélagi sem við búum í dag er aukin krafa um að fólk nýti sér almenningssamgöngur og til þess að það geti raungerst þá þarf þjónustan að vera til staðar,“ segir í bréfi íbúaráðs.

Það er sjálfsögð krafa að fjölgað verði stoppistöðvum Strætó á Kjalarnesi en það er jafnframt það minnsta sem hægt er að gera fyrir íbúa hverfisins ef það stendur raunverulega vilji til þess að almenningssamgöngur blómstri. Á samfélagsmiðlinum Facebook hafa íbúar Kjalarness látið í sér heyra og eru allar athugasemdir á þessa leið:

„Er strætó sem gengur hérna? Ég gafst upp fyrir mörgum árum.“

„Um helgar fer vagn héðan klukkan 10.41 og svo ekki fyrr en rúmlega 14 … og svo kemur hann ekki.“

„Ég get ekki nýtt hann í vinnu og hætti ekki á að komast ekki heim.“

„Af hverju er Kjalarnes ekki inni í leiðarkerfi höfuðborgarsvæðisins?“

Fái ég til þess tækifæri mun ég berjast fyrir því að leiðakerfi Strætó verði leiðrétt þegar kemur að Kjalnesingum. Því þeir eiga það skilið, eins og aðrir Reykvíkingar, að geta nýtt sér almenningssamgöngur.

Höfundur er í framboði fyrir Samfylkinguna í Reykjavík.


Tengdar fréttir

Sextán vilja í framboð fyrir Samfylkinguna

Sextán manns buðu sig fram til forvals Samfylkingarinnar í Reykjavík. Öll framboðin voru metin gild fyrir forvalið sem fer fram helgina 12. til 13. febrúar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×