Innlent

Leik­skólar og frí­stundaheimili opna klukkan eitt

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Leikskólar og frístundastarf grunnskólanna opnar klukkan eitt í dag.
Leikskólar og frístundastarf grunnskólanna opnar klukkan eitt í dag. Vísir/Vilhelm

Leikskólar og frístundastarf grunnskólanema á höfuðborgarsvæðinu opnar klukkan eitt í dag. Þetta var niðurstaða almannavarna á höfuðborgarsvæðinu og skóla- og frístundarsviðanna sem funduðu fyrir stuttu.

Til stóð að allt skóla- og frístundasvið lægi niðri í dag vegna veðurs en svo fór að snjókoma var ekki jafn mikil og búist var við og því mun betri færð í höfuðborgarsvæðinu. 

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu en mbl.is sagði fyrst frá. Víðir segir að von sé á tilkynningu frá almannavörum og skóla- og frístundasviði höfuðborgarsvæðisins innan skamms. 

Engar viðvaranir eru nú í gildi á höfuðborgarsvæðinu en appelsínugular viðvaranir eru nú í gildi á Vestfjörðum, Ströndum, Norðurlandi Vestra, Norðurlandi Eystra, Austurlandi, Austfjörðum, Suðausturlandi og Miðhálendinu. 

Gular veðurviðvaranir taka svo gildi á Suðvesturlandi, höfuðborgarsvæðinu, Vesturlandi og Faxaflóa um miðjan daginn í dag og verða í gildi í um sólarhring. 

Víða er búið að opna vegi að nýju, til dæmis Reykjanesbraut, Grindavíkurveg og veginn um Kjalarnes en enn er krapi á vegunum. Þá er unnið að mokstri milli Hveragerðis og Selfoss. 

Þá byrjar Strætó að ganga upp úr klukkan tíu á höfuðborgarsvæðinu. 


Tengdar fréttir

Fárviðri suðvestanlands: Býst við „krapasulli“ og vatnselg

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingar segir að óveðrið sem gengur yfir hafi hingað til verið verst suðvestanlands. „Ef þú horfið á vindinn, þá er þetta ansi hvasst,“ sagði Einar í samtali við Bítið á Bylgjunni nú á sjötta tímanum.

Færðin farin að spillast í efri byggðum borgarinnar

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að nokkuð hafi verið um foktjón í veðrinu sem nú gengur yfir. Flest verkefni björgunarsveitanna hafa verið á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum og Suðurlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×