Erlent

Rúm­­lega sjö­tíu þættir af hlað­­varpi Joe Rogan fjar­lægðir af Spoti­fy

Atli Ísleifsson skrifar
Joe Rogan stýrir einum vinsælasta hlaðvarpsþætti heims.
Joe Rogan stýrir einum vinsælasta hlaðvarpsþætti heims. Getty

Um sjötíu hlaðvarpsþættir Joe Rogan hafa verið fjarlægðir af Spotify. Bandarískir fjölmiðlar segja að Rogan hafi sjálfur valið að fjarlægja þættina. Forstjóri Spotify, Daniel Ek, segir í skilaboðum til starfsmanna að í umræddum þáttum hafi Rogan látið særandi orð falla sem endurspegli ekki gildi félagsins. 

Frá þessu segir í grein Verge, en meðal þátta sem hafa verið fjarlægðir eru þættir þar sem Amy Schumer, Marc Maron og Bill Burr eru gestir Rogans. Fyrr í vikunni var þrýst á Spotify að fjarlægja hlaðvarpið í heild sinni.

Sú ákvörðun að fjarlægja þættina kemur í kjölfar þess að Rogan baðst afsökunar á að hafa ítrekað sagt „n-orðið“ í þáttum sínum. Söngkonan India Arie birti á dögunum myndband þar sem búið var að klippa saman um tuttugu skipti þar sem Rogan segir orðið í þætti sínum.

„Ég veit að fyrir flestar manneskjur er ekki til það samhengi þar sem hvítur maður má segja orðið, og sérstaklega ekki á opinberum vettvangi í hlaðvarpi, og er alveg sammála því,“ sagði Rogan í myndbandi sem hann birti á Instagram-síðu sinni á laugardaginn.

Rogan sagðist ekki hafa notað orðið í mörg ár. Ennfremur sagði hann að í myndbandinu, sem India Arie deildi, sé ekkert samhengi. Í sumum tilvikum hafi hann verið að ræða það að aðrir hafi sagt orðið, eins og grínistarnir Redd Foxx og Richard Pryor, sem báðir voru svartir.

Mikið hefur gustað um Rogan og Spotify síðustu vukurnar þar sem tónlistarmenn á borð við Neil Young, Joni Mitchell og Nils Lofgren hafa öll látið fjarlægja tónlist sína af Spotify þar sem þau vilja meina að Rogan, sem er á samningi hjá Spotify, sé að dreifa samsæriskenningum og röngum upplýsingum um Covid-19.

Hlaðvarp Rogans er eitt það vinsælasta í heimi.


Tengdar fréttir

Rogan biður Spotify afsökunar og heitir bót og betrun

Hlaðvarpsþáttastjórnandinn Joe Rogan hefur heitið því að reyna að fá fólk með ólík sjónarmið í þáttinn til sín og að gera sitt besta til að kynna sér þau mál sem hann tekur fyrir í þættinum.

Fjarlægja tónlist Neil Young af Spotify

Spotify vinnur nú að því að fjarlæga tónlist Neil Young af streymisveitunni eftir að fyrirtækið neitaði að taka út umdeilda hlaðvarpsþætti Joe Rogan. Young setti Spotify afarkosti á dögunum og krafðist þess að þættirnir yrðu strax fjarlægðir en Rogan hefur verði gagnrýndur fyrir að dreifa fölskum upplýsingum um virkni bóluefna gegn Covid-19.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×