Ef það gengur eftir fara meginvextir bankans úr 2,00% í 2,75%, þá sömu og voru við lýði áður en hröð vaxtalækkun Seðlabankans hófst í mars 2020. Þó telur Greining Íslandsbanka talsverðar líkur á því að vextir verði hækkaðir um 0,50 prósentur í næstu viku og skiptar skoðanir verði um málið í peningastefnunefnd. Verðbólga mældist 5,7% í janúar sem er mesta tólf mánaða verðbólga síðan í apríl 2012, eða í um tíu ár.
Að sögn Greiningar Íslandsbanka munu versnandi skammtíma verðbólguhorfur og hækkandi langtímavæntingar um verðbólgu vega þungt í ákvörðun nefndarinnar en einnig muni hún horfa til batnandi efnahagsástands frá síðustu vaxtaákvörðun í nóvember.
„Væru það helst áhyggjur af áhrifum á skuldsett heimili og viðkvæma atvinnugeira sem temprað gætu hækkunarvilja nefndarinnar. Verði smærra skrefið stigið að þessu sinni aukast hins vegar að sama skapi líkur á að hækkun vaxta á öðrum fjórðungi ársins verði meiri en ella,“ segir í tilkynningu Íslandsbanka.
Næsta vaxtaákvörðun í maí
Um er að ræða einu vaxtaákvörðun Seðlabankans á fyrsta ársfjórðungi en næsta ákvörðun verður í maíbyrjun. Síðasta ákvörðun var tekin um miðjan nóvember þegar stýrivextir voru hækkaðir um 0,5 prósentur úr 1,5% í 2,0%.
Bent er á í greiningu Hagfræðideildar Landsbankans að verðbólga erlendis hafi töluverð áhrif hér á landi og mörg helstu viðskiptalönd Íslands séu að upplifa mestu verðbólgu í þrjá til fjóra áratugi. Vísbendingar séu um að verð erlendra birgja hafi hækkað töluvert um áramótin og að þær hækkanir eigi enn eftir að koma fram í innlendu verðlagi með tilheyrandi verðbólgu.
Fréttin hefur verið uppfærð.