Sveinn var í íslenska landsliðshópnum sem kallaður var saman til æfinga í byrjun árs vegna Evrópumótsins í Ungverjalandi og Slóvakíu.
Á öðrum æfingadegi landsliðsins meiddist Sveinn hins vegar í hné og varð að hætta við EM.
Nú er komið í ljós að meiðsli Sveins eru svo alvarleg að hann verður frá keppni í hálft ár en það er handbolti.is sem greinir frá þessu.
„Hnéskelin fór úr lið og síðan þurfti að gera við brjóskskemmdir í leiðinni,“ sagði Sveinn við handbolta.is.
Eins og Vísir greindi frá í byrjun desember er Sveinn á leið til þýska úrvalsdeildarliðsins Erlangen í sumar. Vegna meiðslanna spilar hann því ekki meira fyrir SönderjyskE heldur snýr þessi fyrrverandi leikmaður Fjölnis og ÍR aftur til keppni í Þýskalandi á næstu leiktíð.