Lífið

Tolli heltist úr lestinni en fé­lagarnir halda ó­trauðir á toppinn

Árni Sæberg skrifar
Félagarnir fyrir tilraun til að ná toppnum í síðustu viku.
Félagarnir fyrir tilraun til að ná toppnum í síðustu viku. Aðsend

Myndlistarmaðurinn Tolli Morthens er hættur við að klífa Aconcauga, hæsta fjall Ameríku. Arnar Hauksson og Sebastian Garcia leiðsögumaður hans stefna á að ná toppi fjallsins á morgun.

Tolli greindi frá því á Facebooksíðu sinni í dag að hann þyrfti frá að hverfa og bíða í grunnbúðum fjallsins. 

„Kæru vinir, nú er komið að því að fyrir mér er þessi Bataganga á Aconcauga lokið. Eins og alltaf í Batagöngu þá gerir maður sitt besta og lærir að þetta er allta eitt skref í einu. Gæðin liggja þar, alltaf.“ segir Tolli í myndbandi sem hann titlar „Að viðurkenna vanmátt sinn í 5500m“.

Í síðustu viku þurfti gönguhópurinn frá að hverfa vegna veðurs og hefur beðið færis í grunnbúðum síðan þá. Í morgun opnaðist gluggi í veðurspá á fjallinu og því fóru þeir Arnar Hauksson og Sebastian Garcia af stað.

„Tvær búðir eru á leiðinni áður en komið er á toppinn. Þeir félagar náðu að síðustu búð fyrir topp um síðustu helgi og eru því orðnir nokkuð kunnugir á svæðinu. Þeir stefna að því að vera á toppnum á morgun og koma hratt niður aftur áður en næsta veður skellur á fjöllunum,“ segir í fréttatilkynningu um leiðangurinn.

Gengið fyrir gott málefni

Leiðangurinn er farinn til að vekja athygli á starfsemi Batahúss sem tók til starfa á síðasta ári og um leið safna áheitum fyrir starfsemina. 

Batahús er einstaklingsmiðað bataúrræði við enda afplánunar þar sem einstaklingum er boðin heimilisaðstaða til allt að tveggja ára. Þeir Tolli og Arnar eru báðir í stjórn Batahúss.

Fylgjast má með gengi þeirra Arnars og Sebastians á Twittersíðu leiðangursins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×