Innherji

Nær allir stjórnendur telja að loftlagsáhrif hafi haft neikvæð áhrif á fyrirtæki þeirra

Ritstjórn Innherja skrifar
Íslenskir lífeyrissjóðir hafa gefið það út að þeir muni meðal annars horfa til fjárfestingarverkefna sem nýta jarðvarma á næstu árum.
Íslenskir lífeyrissjóðir hafa gefið það út að þeir muni meðal annars horfa til fjárfestingarverkefna sem nýta jarðvarma á næstu árum.

Hátt í 80 prósent stjórnenda fyrirtækja í 21 landi, þar á meðal á Íslandi, telja jörðina nálgast vendipunkt í loftlagsbreytingum og að það verði ekki aftur snúið. Sé aðeins litið til stjórnenda á Norðurlöndum þá eru um 72 prósent á þeirri skoðun en fyrir um ári síðan var það hlutfall 59 prósent.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri sjálfbærni könnun ráðgjafafyrirtækisins Deloitte en hún er sögð gefa til kynna aukna vitundarvakningu um umhverfismál á meðal stjórnenda. Könnunin náði til samtals tvö þúsund stjórnenda en þar af voru 145 á Norðurlöndunum og 20 á Íslandi.

Samkvæmt niðurstöðum hennar þá töldu sömuleiðis nánast allir þátttakendur, eða um 97 prósent, að loftlagsáhrif hefðu þegar haft neikvæð áhrif á fyrirtækin sem þeir stýra og helmingur sagði að rekstur hefði raskast vegna loftlagsbreytinga.

Þrátt fyrir þessar niðurstöður ríkir bjartsýni meðal meirihluta stjórnenda, eða um 88 prósent aðspurðra, um að hægt sé að koma í veg fyrir neikvæðustu áhrif loftslagsbreytinga með brýnum aðgerðum. Í eldri könnun, sem framkvæmd var fyrir átta mánuðum síðan, voru einungis um 63 prósent sömu skoðunar.

„Fyrirtæki á Norðurlöndunum finna fyrir auknum þrýstingi frá hagaðilum um að fara í aðgerðir í þágu loftslagsmála og sá þrýstingur er meiri á Norðurlöndunum en að meðaltali á heimsvísu samkvæmt sjálfbærnikönnun Deloitte. Þeir sem fara þar fremstir eru neytendur og viðskiptavinir, samfélagið og svo framkvæmdastjórn og stjórnarmeðlimir. Það er því ljóst að það er sívaxandi og almennur þrýstingur á fyrirtæki að taka loftslagsmálin alvarlega og sjálfbærnisjónarmiðin eru leiðarljósið á þeirri vegferð," segir Hulda Þórhallsdóttir, verkefnastjóri í sjálfbærnismálum hjá Deloitte á Íslandi, og bætir við:

„Við sjáum þó líka að fyrirtæki á Norðurlöndum er ólíklegri til að hafa stigið raunveruleg skref til að draga úr kolefnisfótspori sínu og á það við um sjálfbærari hráefnisnotkun, orkunotkun, endurnýtanleg efni og ferðalög. Það er því ljóst að verðum að gera miklu betur og ná betri samhljómi á milli metnaðar og raunverulegra aðgerða."

Að sögn Huldu er þó ljóst að vilji stjórnenda er mikill og því megi búast við örari breytingum og markvissari aðgerðum á komandi misserum.

„Það kemur svo sem ekkert mikið á óvart að heimsfaraldur COVID hefur frestað brýnustu aðgerðunum á heimsvísu enda segja um 65 prósent stjórnenda í könnuninni að þeir hafa orðið að draga tímabundið úr loftslagsaðgerðum vegna COVID. Því verður enn mikilvægara en áður að fyrirtæki finni breytingar í sjálfbærni sem hvata til róttækra aðgerða á leið út úr faraldrinum,“ útskýrir hún.

„Þau fyrirtæki sem eru leiðandi í þessum málum einblína á markmið, mæla árangur sinn og birta niðurstöður sínar í sjálfbærniskýrslum. Jafnframt er mikil áhersla lögð á að fræða starfsfólkið um loftslagsbreytingar og umhverfismál og þar erum við engin undantekning,“ segir Hulda.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Sjálfbær útgáfa jókst um ríflega 40 prósent milli ára

Útgáfa sjálfbærra skuldabréfa á Íslandi nam 173 milljörðum króna á árinu 2021 samanborið við 122 milljarða króna árið 2020 samkvæmt tölum frá sjálfbærniteymi KPMG. Vöxtur í útgáfu sjálfbærra bréfa nam því 42 prósentum á milli ára.

Grænar fjárfestingar ekki pólitískari eða umdeildari en margt annað

Lífeyrissjóðurinn Birta telur að aukin áhersla á grænar fjárfestingar á komandi árum, sem fellur undir þau UFS-viðmið sem sjóðurinn hefur sett sér í fjárfestingarstefnu sinni, geti skilað sjóðsfélögum betri ávöxtun til lengri tíma litið. Sjóðurinn stefnir að því að um átta prósent af eignasafni hans verði í slíkum fjárfestingum fyrir árslok 2030. Það er um þrisvar sinnum hærra hlutfall en er í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×