Innlent

Ein tilkynning um aukaverkun í yngsta aldurshópnum

Samúel Karl Ólason og Fanndís Birna Logadóttir skrifa
Frá bólusetningu barna í Laugardalshöll.
Frá bólusetningu barna í Laugardalshöll. Vísir/Vilhelm

Þriðji dagur bólusetninga barna á aldrinum fimm til ellefu ára á höfuðborgarsvæðinu hófst í Laugardalshöll í morgun en mætingin síðustu tvo daga hefur verið um sjötíu prósent. Fyrr í mánuðinum hófust bólusetningar í öðrum sveitarfélögum.

Hingað til hefur Lyfjastofnun aðeins fengið eina tilkynningu vegna gruns um aukaverkun í kjölfar bólusetningar hjá þessum hóp og er sú tilkynning ekki metin alvarleg. 34 tilkynningar hafa borist vegna gruns um aukaverkun í hópi barna á aldrinum tólf til fimmtán ára, þar af fjórar alvarlegar. Börn á aldrinum fimm til ellefu ára fá þó minni skammt heldur en þeir eldri, eða um einn þriðja.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, fór yfir málin í viðtali við Reykjavík Síðdegis í dag en hún sagði flestar tilkynningar varða til að mynda hita, beinverki, kviðverki og hraðan hjartslátt. Verði fólk vart við aðrar aukaverkanir er mikilvægt að tilkynna það.

Lyfjastofnun greinir daglega frá fjölda tilkynninga og vikulega er birt nákvæmari yfirferð yfir fjölda alvarlegra tilkynninga. Frá því að byrjað var að bólusetja í lok desember 2020 hér á landi hafa í heildina hátt í sex þúsund tilkynningar borist vegna gruns um aukaverkun, þar af 268 alvarlegar.

Þar af hefur ein borist vegna aldurshópsins fimm til ellefu ára. Hún var ekki alvarleg.

Í aldurshópnum tólf til fimmtán ára hafa 34 tilkynningar borist. Fjórar þeirra eru skilgreindar sem alvarlegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×