Skoðun

Svar við opnu bréfi - 7. bekkur

Birgir Edwald skrifar

Ágæta Margrét

Þakka þér fyrir opna bréfið til okkar varðandi íslenskuverkefnið í Sunnulækjarskóla sem er raunar í 7. bekk en ekki 6. bekk.

Í vetrabyrjun kynntu kennarar kennsluáætlun vetrarins fyrir foreldrum, þar á meðal átta vikna kennslulotu í samþættri íslensku og lífsleikinkennslu. Fyrirkomulag kennslunnar er á þann veg að á mánudögum er horft á einn þátt úr þáttaröðinni Brot.

Að honum loknum er glósað og spurningum svarað um umfjöllunarefni þáttarins. Á miðvikudegi, fimmtudegi og föstudegi rúllar svo hringekja þar sem unnið er með ferns konar viðfangsefni í fjórum kennslustundum.

Viðfangsefnin eru lífsleikni, ritun, orðaforðavinna og rannsóknarveggur. Í lífsleikni er lögð áhersla á fræðslu um réttindi barna sem tengd eru barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í ritun er lögð áhersla á uppbyggingu heildstæðrar textagerðar og í orðaforðavinnunni er lögð áhersla á að vinna með lykilorð úr hverjum þætti, greina þau og skýra. Einnig er settur upp rannsóknarveggur á hverju svæði og á þeirri stöð setja nemendur sig í spor rannsóknarlögreglu, vinna að því í sameiningu að greina persónur og söguþráð og leysa ráðgátuna í þáttunum.

Við lok lotunnar kemur barnavernd og lögregla í skólann með fræðslu um ofbeldi auk þess sem við fáum að taka viðtal við varðstjóra hjá lögreglunni á Selfossi þar sem krakkarnir fá að undirbúa spurningar fyrir viðtalið.

Við val á á viðfangsefni til að nota sem kveikju í þessari vinnu var horft til þess að þegar þættirnir Brot voru sýndir í Sjónvarpi RÚV voru þeir gulmerktir og sagðir ekki við hæfi barna yngri en 12 ára. Eins og áður sagði er verkefnið unnið á vorönn í 7. bekk þegar nemendur árgangsins hafa náð 12 ára aldri.

Það er okkur mikilvægt að eiga gott samstarf við heimili nemenda enda er það ein af forsendum árangurs í námi barna.

Við höfum nýverið fengið athugasemd við val á myndefninu. Í framhaldi af þeirri athugasemd munum við leggja framgreinda kennsluáætlun til hliðar og nálgast þau hæfniviðmið sem tilheyra henni með öðrum hætti.

Höfundur er skólastjóri


Tengdar fréttir

Opið bréf til Sunnu­lækja­skóla á Sel­fossi

Kæru skólastjórnendur. Það hefur borist mér til eyrna að framundan verði nýtt námsefni fyrir 12 ára börnin í íslensku sem mun standa yfir í 8 vikur. Endilega leiðréttið og vinsamlegast svarið örfáum spurningum.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×