Kortavelta erlendra ferðamanna hefur hins vegar ekki dregist jafn mikið saman á milli mánaða í um áratug.
Þetta sýna nýjar greiðslukortatölur frá Rannsóknasetri verslunarinnar (RSV) en innlend kortavelta er sögð sýna jólalega aukningu í innkaupum á matvöru, bókum, fötum, áfengi og eins í áskriftarkaupum að fjölmiðlum.
Samtals nam kortavelta Íslendinga hérlendis rúmlega 92,5 milljörðum króna á síðasta mánuði ársins og jókst hún um meira en 16 prósent á milli mánaða. Sé litið til desember ársins 2020 var veltan um 10,4 prósent hærri og borið saman við desember árið 2019 var liðlega 20 prósenta aukning í innlendri kortaveltu.
Samkvæmt tölum RSV straujuðu Íslendingar kortin sín innanlands fyrir samtals 918 milljarða króna á árinu 2021. Það er um 96 milljarða króna aukning frá árinu 2020, eða sem nemur um 11,7 prósent.
Rannsóknasetur verslunarinnar segir að hlutfall kortaveltu í verslun hafi aukist enn meira í desember, á kostnað veltunnar í þjónustu, en velta skiptist þannig að 62 prósent kortaveltu Íslendinga hérlendis fór í verslun en 38 prósent í þjónustu. Að jafnaði er veltan hins vegar nokkuð jöfn flesta aðra mánuði ársins.
Þá kemur fram í frétt á heimasíðu RSV að 44 prósent aukning hafi verið í flokknum „Miðlun“ á milli mánaða (sjá mynd að ofan) og bent á að í gegnum árin megi greina „jólalega þróun“ með toppum í desember og dýfum í janár ár hvert. „Líklega stafar þróunin af því að margir kaupa áskrift að hinum ýmsu miðlum til að njóta dagskrár þeirra í aðdraganda jóla og jólafríinu en segja svo áskriftinni aftur upp í janúar,“ segir RSV.
Sé litið til hlutfalls erlendrar kortaveltu af heildarveltunni á Íslandi þá nam hún 8,8 prósent í desember á liðnu ári en sama hlutfall var tæp 2 prósent á árinu 2020 og 14,4 prósent í desember 2019.
Samtals dróst erlenda kortaveltan saman um 13 prósent á milli mánaða í desember (sjá myndina að ofan). Er það mesti samdráttur sem mælst hefur á milli nóvember og desember frá því að RSV hóf gagnasöfnun á kortaveltu erlendra ferðamanna árið 2012. Leiða má líkur að því að samdrátturinn nú sé afleiðing sóttvarnartakmarkana sem gripið hefur verið víða um heim vegna Omicron afbrigðis kórónuveirunnar.