Rúm þrjú ár eru liðin frá því að Mannréttindadómstóll Evrópu fyrirskipaði greiðslu bótanna vegna brota stjórnvalda gegn evrópskum lögum gegn pyntingum.
Zubaydah hefur verið haldið af Bandaríkjamönnum í meira en 20 ár án ákæru. hann var handtekinn í Pakistan um sex mánuðum eftir árásirnar 11. september 2001. Lögmenn Bush-stjórnarinnar freistuðu þess að réttlæta pyntingarnar á þeirri forsendu að Zubaydah væri háttsettur liðsmaður Al Kaída en í ljós kom að hann var hvorki meðlimur samtakanna né hefur hann nokkurn tímann verið ákærður fyrir aðild að árásunum 2001.
Lögmenn Zubaydah segja víst að stjórnvöld í Litháen hefðu ekki greitt bæturnar nema fá grænt ljós frá Washington og að því sé uppgjörið til marks um að Bandaríkjamenn séu að mildast í afstöðu sinni til svokallaðra „eilífðarfanga“.
Í október síðastliðnum hlýddi Hæstiréttur Bandaríkjanna á mál þar sem stjórnvöld vestanhafs eru að reyna að koma í veg fyrir að tveir verktakar CIA beri vitni í dómsmáli í Póllandi sem sömuleiðis varðar pyntingar á Zubaydah. Við málflutninginn notuðu dómararnir nokkrum sinnum orðið „pyntingar“, sem einnig þykir til marks um ákveðna viðhofsbreytingu vestra.
Zubaydah var haldið á nokkrum svörtum stöðum víða um heim en verstu pyntingarnar mátti hann þola í Taílandi. Þeirra á meðal voru vatnspyntingar, þar sem líkt er eftir drukknun, en þær voru framkvæmdar á Zubaydah að minnsta kosti 83 sinnum á einum mánuði. Þá var hann látinn dúsa í kassa á stærð við líkistu dögum saman.
Fjármunirnir frá Litháen voru lagðir inn á bankareikning en Zubaydah getur ekki tekið við þeim þar sem honum er enn haldið í Guantanamo og þá hafa eignir hans verið frystar af bandarískum stjórnvöldum. Frysting eigna hans af hálfu Sameinuðu þjóðanna var aflétt fyrir tveimur árum, að kröfu lögmanna Zubaydah.