Innlent

Full­yrðingar um að tví­bólu­settir smitist frekar standist ekki

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Sóttvarnalæknir segir í nýbirtum pistli sínum að línurit um nýgengi smita á síðunni covid.is þurfi að túlka af varúð. Mikilvægt sé að rýna í samsetningu hópanna sem tölurnar byggjast á.

Línuritið er um nýgengi sjúkdómsins hjá börnum og fullorðnum eftir bólusetningastöðu. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir skiljanlegt að fólk misskilji línuritið með þeim hætti að hægt sé að álykta sem svo, að áhættan á því að smitast af Covid-19 sé meiri hjá tvíbólusettum en óbólusettum. Það sé þó ekki alveg rétt.

„Rétt er að benda á, að hópur óbólusettra er að líkindum verulega minni en notast er við í útreikningum línuritsins. Þannig er töluvert vanmat til staðar í tölum um nýgengi hjá óbólusettum fullorðnum og nýgengið því í raun hærra en birt er,“ segir Þórólfur og bætir við að óvissan geri það að verkum að línuritið þurfi að túlka af varúð.

Hér má sjá línuritið umrædda.Covid.is

Þórólfur segir að meginskilaboðin í línuritinu séu sú að bólusetningin, og þá sérstaklega aðeins einn eða tveir skammtar, séu ekki að vernda nægilega vel gegn smiti af völdum ómíkron-afbrigðisins. Verndin gegn smiti sé hins vegar góð þegar um er að ræða delta-afbrigðið.

„Erlendar rannsóknir og reynsla okkar á Íslandi sýnir einmitt að verndin er fyrst og fremst gegn alvarlegum veikindum af völdum afbrigðisins og þá sérstaklega eftir örvunarskammtinn. Þessi vitneskja á að vera öllum hvatning til að mæta í bólusetningu og þiggja örvunarskammt,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×