Í þættinum bendir Gísli Freyr Valdórsson, stjórnandi hlaðvarpsins, að oft á tíðum hafi ríkt mikil óeining innan borgarstjórnarflokksins og spyr í framhaldinu hvort að Eyþóri hafi mistekist sem leiðtoga að sameina borgarstjórnarflokkinn.
„Það hefur enginn skilið við hópinn,“ svarar Eyþór þá að bragði og bendir á að varaborgarfulltrúum flokksins hafi fjölgað um einn á kjörtímabilinu.
„Þannig að við erum eini flokkurinn í borgarstjórn sem hefur bætt við sig fulltrúa á kjörtímabilinu. Þannig að ef við horfum á klofning, þá hefur hann verið í átt til okkar en ekki frá.“
Ágreiningur í borgarstjórnarhópi Sjálfstæðisflokksins
Eyþór viðurkennir í framhaldinu að ágreiningur sé um áherslur og að ekki hafi allir borgarfulltrúar kosið með sama hætti um stór mál innan borgarstjórnar. Slíkt hafi þó gerst áður og rifjar hann í framhaldinu upp að innan flokksins hafi gjarnan verið skiptar skoðanir á stórum málum, þá sérstaklega samgöngumálum.
Í þættinum er sem fyrr segir rætt um ástæður þess að Eyþór ákvað að hætta í stjórnmálum en einnig um væntanlegt mótframboð sem Eyþór fékk frá Hildi Björnsdóttur áður en hann tilkynnti ákvörðun sína um að hætta.
Þá fjallar Eyþór um fjárhagslega stöðu borgarinnar, um framtíðina í samgöngumálum og brýnustu verkefnin sem Reykjavíkurborg stendur frammi fyrir.
![](https://www.visir.is/i/3E8D218FD4F46F335E0F725183289B1CAFD1A936AD18378A7366EE9F086C2F6A_713x0.jpg)
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.