Milos Milojevic, sem er frá Serbíu en hlaut íslenskan ríkisborgararétt á síðasta ári, var kynntur sem nýr þjálfari Malmö á blaðamannafundi í hádeginu. Hann kveðst afar spenntur fyrir því að taka til starfa hjá félaginu.
„Ég er mjög tilbúinn að hefja vinnuna. Það er það fyrsta sem ég hugsa um núna, að hitta leikmennina og byrja að vinna leiki. Það er aðalatriðið, og aðalástæðan fyrir því að ég er mættur hingað. Þetta félag snýst bara um að vinna og þannig hefur það verið síðustu tíu ár, og auðvitað áður, en síðustu tíu ár hafa verið mjög aðdáunarverð,“ sagði Milos.
"MFF har varit väldigt framgångsrika de senaste tio åren. Det inspirerar mig men jag vill att vi ska dominera och vinna ännu mer. Jag tror på klubben, på spelarna och på mig själv."
— Malmö FF (@Malmo_FF) January 7, 2022
Milos Milojevic pic.twitter.com/yC2CWCNxX3
Milos stýrði Víkingi R. og Breiðabliki hér á landi en kemur til Malmö eftir að hafa stýrt Hammarby sem einnig leikur í sænsku úrvalsdeildinni. Hann er ánægður með að vera kominn með besta lið Svíþjóðar í hendurnar:
„Metnaður félagsins og minn metnaður eru sams konar. Kröfurnar eru miklar en ef að það væri öðruvísi þá væri það ekki nógu gott. Önnur ástæða er tengsl mín við Malmö áður en ég kom til Svíþjóðar, því ég hef unnið í því að fá leikmenn frá Malmö og hef fylgst með leikjum liðsins og þróun þess. Ég veit til hvers er ætlast af mér, og óttast ekki ábyrgðina.
Ég veit að þetta er mikil vinna en ég veit að ég er með bestu leikmennina í deildinni, bestu möguleikana, og veit að hér er allt til alls til að ná góðum árangri. Í sem stystu máli er ég gríðarlega stoltur og ánægður, og get ekki beðið eftir því að byrja,“ sagði Milos.