Kaupin eru kaflaskipti í sögu skólans en förðunarfræðingarnir Sara Dögg Johansen og Sigurlaug Dröfn Bjarnadóttir, betur þekktar sem Sara og Silla, stofnuðu skólann 2013 og hafa starfað við hann síðan.

„Við vinkonurnar lögðum allt okkar í skólann, bjuggum til þetta flotta vörumerki, byggðum upp vinsælasta förðunarskólann á landinu, útskrifuðum um 900 dásamlega nemendur og er skólinn í dag elsti förðunarskóli á landinu,“ segja Sara og Silla í samhljóma Instagram færslum þar sem þær tilkynna söluna á skólanum. Þær óska nýjum eigendum skólans til hamingju og bíða spenntar eftir því að fylgjast með honum blómstra hjá þeim Ingunni og Heiði.
Framundan eru breytingar á skólanum þar sem hann flytur í nýtt húsnæði. Stefnt er að því að opna dyrnar á skólanum aftur í lok febrúar eða byrjun mars. „Á nýju ári sjáum við fram á að starfsemin og aðsóknin í förðunarnám fari að vaxa á ný og hlökkum við ótrúlega til að bjóða uppá fjölbreytt námskeið sem hentar öllum hvort sem þú ert byrjandi eða lengra kominn,“ segir Ingunn í samtali við Vísi.
„Samstarfið okkar gengur eins og í sögu. Við erum ávallt að peppa hvor aðra og erum óhræddar við að setja okkur há markmið fyrir framtíðina og eigum okkur stóra drauma.“
Ingunn og Heiður segjast spenntar fyrir öllum verkefnunum sem eru framundan. Þær sameinuðu krafta sína undir nafninu HI beauty fyrir nokkrum árum. og starfa báðar sem förðunarfræðingar á fjölbreyttum sviðum geirans. Þær stefna á að gefa út sína eigin förðunarlínu síðar á árinu sem hefur lengi verið í vinnslu ásamt því að reka skólann.
Ingunn og Heiður eru þar að auki þáttastjórnendur Snyrtiborðsins á Vísi og fer önnur þáttaröð í loftið síðar í þessum mánuði. Einnig skrifa þær pistla hér á Lífinu á Vísi og verða í dómnefnd í nýjum sjónvarpsþætti hjá Sjónvarpi Símans sem ber nafnið Make Up og verður í stjórn Kristínar Pétursdóttur.