Um er að ræða fimm einstaklinga í sömu fjölskyldu sem létu reyna á ákvörðun sóttvarnalæknis um tíu daga einangrun fyrir dómi, líkt og heimild er fyrir í sóttvarnalögum. Fólkið var allt einkennalaust. Arnar Þór Jónsson lögmaður fór með málið fyrir hönd allra fimm. Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur á mánudag.
„Úrskurðirnir komu seint í gærkvöldi og þar er staðfest ákvörðun sóttvarnalæknis í öllum þessum fimm málum,“ segir Arnar Þór í samtali við Vísi. Hann bætir því við að dómarinn í málunum hafi gert athugasemd við upplýsingagjöf stjórnvalda til borgaranna, en það hafi ekki verið talið duga til að ógilda einangrunarferlið.
Einangrun flestra sem áttu hlut að máli rann út nú á miðnætti, og koma þeir því ekki til með að geta skotið málinu til Landsréttar, vegna skorts á lögvörðum hagsmunum. Arnar Þór segir að ræða þurfi hvort farið verði með mál hinna til Landsréttar.
Arnar Þór sagðist ekki geta gefið kost á nánari viðbrögðum að svo stöddu, hann ætti eftir að skoða málið betur.
Ákvarðanir um einangrun alltaf verið staðfestar
Héraðsdómstólar hafa áður tekið til umfjöllunar mál sem varða einangrun einstaklinga sem greinst hafa með Covid-19. Fyrst í október árið 2020 og sömuleiðis í apríl á þessu ári. Alls hafa tíu slík mál farið fyrir héraðsdómara, og alltaf hefur ákvörðun sóttvarnalæknis verið staðfest.
Þremur málanna var svo skotið til Landsréttar, sem staðfesti í öllum þremur tilvikum ákvarðanir héraðsdóms.
Síðasta vor voru hins vegar kveðnir upp úrskurðir þar sem ekki var talin lagastoð fyrir reglugerðarákvæði í reglugerð heilbrigðisráðherra sem skikkaði einstaklinga til að taka út sóttkví á farsóttarhúsi við komuna til landsins. Þar var þó ekki deilt um skyldu fólks til að taka út sóttkví, heldur aðeins hvort skylt væri að gera það á þar til gerðu hóteli.