Heilbrigðisráðherra tilkynnti í dag að tuttugu manna samkomubann tæki gildi á miðnætti annað kvöld 22. desember. Þá mega 200 koma saman í hólfi á viðburðum í stað 500 gegn framvísun hraðprófs eða vottorða. Að sögn viðburðahaldara hefði nýja reglugerðin að óbreyttu komið í veg fyrir tónleikana en þeir fóru ekki fram í fyrra.
Fordæmi eru fyrir því að Borgarleikhúsið og Þjóðleikhúsið hafi fengið svipaða undanþágu yfir helgi þegar hertar samkomutakmarkanir voru kynntar með skömmum fyrirvara.
Eins og þegar hann fékk byssurnar í jólagjöf árið 1964
Bubbi segir í samtali við fréttastofu að dagurinn hafi verið mikil rússíbanareið þar sem miklir fjármunir og vinna sé í húfi. Vendingin hafi komið honum skemmtilega á óvart.
„Ég er bara ofskaplega ánægður vegna þess að Þorláksmessutónleikarnir verða og streymið og ég get ekki annað en verið glaður með þetta. Við getum sagt það að fjórtándi jólasveinninn hafi komið með risastóran pakka,“ segir Bubbi léttur í bragði en hann er nú staddur á Akureyri þar sem hann heldur tónleika í Hofi í kvöld.
„Þessir tónleikar í Hörpu voru settir upp í október og þeim var frestað í fyrra og þar var slatti af fólki sem var búinn að kaupa miða og er búið að bíða. Núna getum við þetta og þetta er bara rosalega skemmtilegt og óvænt.
Ég hef ekki fengið svona svakalegan pakka síðan ég fékk byssurnar frá móðurfjölskyldu minni í Danmörku 1964. Það var aðal jólagjöfin maður.“
Lofar trylltum tónleikum
Búið er að selja 1.500 miða á uppselda tónleikana og seldust þeir fljótt upp á sínum tíma. Bubbi er ákveðinn í því að fjölga þeim ekki þrátt fyrir greinilega eftirspurn. Markmiðið sé að skapa einstaka stemningu og upplifun.
„Þetta eru gríðarlegir fjármunir og þetta eru ekki bara fjármunir sem standa að mér og öllum þeim sem vinna í kringum mig heldur er þetta líka starfsfólkið í Hörpu og allir sem koma að þessu. Það er ekkert hægt að gera þegar maður lendir í þessu, þetta er bara eins og að vera kominn út í bíl og það eru engin hjól. Þannig að ég er alveg óendanlega þakklátur.“
Engin veitingasala verði á tónleikunum og fólki gert að sitja með sína grímu eftir að hafa mætt í hraðprófin.
„En ég get lofað mönnum gjörsamlega trylltum tónleikum!“ bætir Bubbi við. Þeir verði nú sérstaklega skemmtilegir fyrir sig þar sem tvö ár séu síðan hann spilaði síðast í Hörpu.
„Svona geta nú ævintýrin gerst á jólunum.“
Já er þetta ekki bara spurning um að trúa?
„Jú og ég trúi á jólasveininn,“ segir Bubbi að lokum og skellir upp úr.