Innherji

Leggur til byggð sérstaklega sniðna að eldri íbúum Reykjavíkur

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Tillaga Kolbrúnar um sérstaklega uppbyggð svæði fyrir eldri íbúa Reykjavíkur verður tekin fyrir á fundi borgarstjórnar á morgun. 
Tillaga Kolbrúnar um sérstaklega uppbyggð svæði fyrir eldri íbúa Reykjavíkur verður tekin fyrir á fundi borgarstjórnar á morgun. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að svæði innan borgarinnar verði skipulögð þannig að sérstök áhersla verði lögð á þarfir eldra fólks. Svæðin verði skilgreind fyrir sextíu ára og eldri og önnur fyrir 75 ára og eldri. Leggur til 2-3 þúsund sérbýli, minigolf, aðstöðu til heimahjúkrunar og skemmtilega garða. Tillagan er á dagskrá borgarstjórnar á morgun.

„Fjölgun eldri íbúa er eitt af þeim verkefnum sem Reykjavíkurborg þarf að takast á við. Hugmyndir nútímans ganga út á að eldra fólk geti búið sem lengst í eigin húsnæði og það er hlutverk okkar í Reykjavíkurborg að aðstoða og skipuleggja slíka byggð,” segir Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins sem leggur málið fram og vill efna til samkeppni meðal arkítekta um svæðin. 

Kolbrún segir mýmörg dæmi um sambærilega byggð í öðrum borgum og bæjum víða um heim þar sem íbúar eru teknir að eldast.

Minigolf og heimahjúkrun

Hún segir töluverðan hluta húsnæðis í borginni ekki hafa verið hugsaður með þarfir eldri íbúa í huga. „Stoðþjónusta er einfaldlega ekki til staðar. Þar þarf að hugsa til útivistar, áhugamála, félagslegrar þjónustu, heilsugæslu og svo framvegis. Með slíku er hægt að styðja eldri íbúa til þess að eldast heima.”

Kolbrún segir ýmsa kosti við að skipuleggja byggð á borð við þá sem hún leggur til. 

„Engin þörf væri á uppbyggingu leik- og grunnskóla eða annarrar þjónustu sem hugsuð er fyrir börn og barnafjölskyldur."

Yrði tillaga Kolbrúnar að veruleika yrði einblínt á uppbyggingu útisvæða með minigolfi, skemmtilegum görðum, innisvæði þar sem hægt yrði að koma fyrir verkefnastofu, sameiginlegu svæði, aðstöðu til heimahjúkrunar og þar fram eftir götunum.

Vill aukna aðkomu eldri íbúa að ákvörðunum í borginni

„Svæðið verður að höfða til eldri borgara og hvetja til útivistar og tómstunda. Aðkoma félaga eldri borgara yrði afar mikilvæg í því samhengi. Hugsa mætti sér allt að 2-3 þúsund minni sérbýli sérhönnuð fyrir þarfir eldri borgara með miðlægum þjónustukjarna. Gönguleiðir og strætisvagnaleiðir yrðu vel hugsaðar með upphituðum skýlum,” segir hún.

Kolbrún leggur áherslu á að aukið samráð verði haft við eldri borgara þegar til að mynda skipulagsmál eru rædd. Sjálf hefur hún haft samráð við hagaðila við undirbúning tillögunnar. „Meirihlutanum er tíðrætt um samráð en mér hefur þótt vanta mjög upp á samráð við þennan hóp þegar verið er að taka ákvarðanir í borginni."


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Niðurgreiðsla skattgreiðenda á ósjálfbærum rekstri minni sveitarfélaga verði sífellt kostnaðarsamari

Í nýrri úttekt Samtaka atvinnulífsins er komist að þeirri afgerandi niðurstöðu að sveitarfélögum þurfi að fækka hressilega. Borgarstjóri tekur undir og segir sveitarfélögin sum hver alltof veik til að standa undir lögbundinni þjónustu í náinni framtíð. Kjarkleysi pólítíkurinnar og íhaldssemi sumra minni sveitarfélaga standi nauðsynlegum sameiningum fyrir þrifum. SA segja niðurgreiðslu skattgreiðenda á ósjálfbærum rekstri minni sveitarfélaga verða sífellt kostnaðarsamari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×