Innlent

Sannar­lega ekki slæmt að gera til­raunir á börnum

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Magnús Karl Magnússon prófessor segir að börnin eigi að vera upplýst um áhættuna af bólusetningum og taka þátt í ákvörðuninni um hvort þau láti bólusetja sig.
Magnús Karl Magnússon prófessor segir að börnin eigi að vera upplýst um áhættuna af bólusetningum og taka þátt í ákvörðuninni um hvort þau láti bólusetja sig. Háskóli Íslands

Magnús Karl Magnús­son, prófessor í lyfja- og eitur­efna­fræði við Lækna­deild Há­skóla Ís­lands, biðlar til for­eldra að láta sér ekki niður­stöður úr til­raunum sem hafa verið gerðar á börnum með bólu­efni sem vind um eyru þjóta. „Við erum svo heppin að hópur barna hefur nú þegar tekið að sér að taka þátt í til­raun og sýnt fram á gagn­semi,“ segir hann í færslu á Face­book.

Þar á­varpar hann for­eldra beint í til­efni af mót­mælum þeirra sem efast um gildi bólu­setninga sem fóru fram í dag undir yfir­skriftinni „Friðar­ganga“. Sá hópur vill gjarnan tala um fyrir­hugaðar bólu­setningar barna hér á landi gegn Co­vid-19 sem „til­raunir á börnum“.

„Erum við að gera til­raun á börnunum okkar núna með bólu­setningu?“ spyr Magnús Karl sig og bendir á að svo sé í raun ekki. Þær til­raunir hafi þegar verið gerðar og niður­stöður úr þeim liggi fyrir.

Erum svo heppin að tilraunirnar liggja fyrir

„Það er svo sannar­lega ekki slæmt að gera til­raunir á börnum en þegar þær eru gerðar þarf að gæta sér­stakrar var­úðar. Slíkar til­raunir þarf að gera til að tryggja börnum nýjar með­ferðir og ný bólu­efni til að fyrir­byggja sjúk­dóma. En nú erum við svo heppin að þessar til­raunir liggja fyrir. Þær eru af­dráttar­lausar,“ skrifar Magnús Karl.

„Bólu­efnin sem nú standa okkur til boða veita mikla vörn og hafa mjög fáar auka­verkanir. Þær stofnanir sem gæta hags­muna barna gang­vart nýjum lyfjum hafa metið þessar rann­sóknir. Þær hafa allar komist af­dráttar­laust að sömu niður­stöðu. Hættan af bólu­efnunum er mun minni en sú hætta sem fylgir því að barnið fái ekki bólu­efni og eigi á hættu að fá sýkingu með fylgi­kvillum. “

Hann segir að auð­vitað fylgi því mikil á­byrgð að taka á­kvarðanir með og fyrir börn sín, öryggi þeirra skipti for­eldra meiru en allt annað. For­eldrar verði að vega og meta kosti og galla bólu­setningar og velja það sem þeir telji að sé börnum sínum fyrir bestu. Þetta eigi að ræða við börnin og foreldrar ættu að leyfa þeim að taka þátt í ákvörðuninni.

Mikið sé vitað um hvernig bólu­efni virki á manns­líkamann og að hættan á auka­verkunum af völdum bólu­setningar sé marg­falt minni en sú sem fylgir því að barn fái ekki bólu­efni og eigi á hættu að fá sýkingu með fylgi­kvillum.

„Á­stæða þess að við tökum þessa ör­litlu á­hættu gagn­vart þeim sem okkur þykir vænst um er sú að bólu­setning er notuð sem vörn gegn sýkingu sem geta valdið um­tals­vert meiri skaða fyrir börnin okkar,“ skrifar Magnús Karl.

Rétta svarið

Hann kemur svo með upp­á­stungu að svari sem for­eldrar ættu að gefa bólu­setningarand­stæðingum þegar þeir spyrji hvort for­eldrarnir vilji gera til­raun á börnum sínum:

„Þá er rétt að þið svarið þeim með eftir­farandi hætti: Við erum svo heppin að hópur barna hefur nú þegar tekið að sér að taka þátt í til­raun og sýnt fram á gagn­semi. Við skulum ekki láta niður­stöður úr þessum til­raunum sem vind um eyru þjóta. Kynnum okkur niður­stöðurnar. Verum á­byrgðar­full gagn­vart börnum okkar og veljum það sem börnunum er fyrir bestu. Hlustið á þá sem þið treystið. Treystið þið betur læknum, hjúkrunar­fræðingum, og vísinda­mönnum sem hafa lagt sig fram um að tryggja vel­ferð barnanna ykkar eða treystið þið ein­hverjum sem hafa lesið sér til á mis­góðum vef­síðum veraldar­vefsins?“


Tengdar fréttir

Með húmorinn að vopni við mót­mæli gegn bólu­setningum barna

And­stæðingar bólu­setninga og að­gerða stjórn­valda gegn heims­far­aldrinum virðast hafa þróað með sér ör­lítinn húmor og smekk fyrir orða­leikjum. Á annað hundrað manns tóku þátt í mót­mælum gegn bólu­setningum barna í dag og voru slag­orð mót­mælenda mörg í frum­legri kantinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×