Norsku stelpurnar spila þar við heimakonur frá Spáni í seinni undanúrslitaleik dagsins en áður mætast Danmörk og Frakkland í hinum undanúrslitaleiknum. Spænska liðið hefur unnið alla leiki sína á mótinu til þessa en norsku stelpurnar hafa ekki tapað leik.
Þórir hefur verið aðalþjálfari norska liðsins frá árinu 2009 og getur náð tímamótum í kvöld komi hann sínum í stelpum í gegnum þetta sterka spænska lið.
Hann hefur nefnilega þegar komið norska liðinu í níu úrslitaleiki á stórmótum, fimm úrslitaleiki á EM, þrjá úrslitaleiki á HM og einn úrslitaleik á Ólympíuleikum. Vinnist leikurinn í kvöld þá verður hann einnig öruggur með sín þrettándu verðlaun sem aðalþjálfari norska kvennalandsliðsins.
Norska liðið hefur spilað þrettán undanúrslitaleiki undir hans stjórn og unnið níu þeirra.
Norska liðið er ríkjandi Evrópumeistari síðan í fyrra en tapaði einmitt á móti Spáni í undanúrslitaleiknum á síðasta HM sem fram fór í Japan í desember 2019.
Norsku stelpurnar eiga því harma að hefna frá því í þeim leik sem tapaðist með sex marka mun, 22-28, eftir að það var jafnt í hálfleik, 13-13.
Undanúrslitaleikur Noregs og Spánar hefst klukkan 19.30 að íslenskum tíma.