Fótbolti

Karó­lína Lea skoraði og Gló­dís Perla stóð vaktina í vörninni er Bayern fór létt með Ben­fi­ca

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Karólína Lea brosti sínu breiðasta eftir að hafa komið Bayern yfir.
Karólína Lea brosti sínu breiðasta eftir að hafa komið Bayern yfir. Daniel Kopatsch/Getty Images

Bayern München vann 4-0 sigur á Benfica í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir spiluðu allan leikinn. Karólína Lea gerði sér lítið fyrir og skoraði fyrsta mark leiksins. 

Fyrir umferð kvöldsins var ljóst að Bayern og Lyon myndu fara í útsláttarkeppnina, eina spurningin var hvort liðið myndi vinna leikinn. Stöllur Söru Bjarkar Gunnarsdóttur í Lyon mættu Häcken þar sem Diljá Ýr Zomers sat allan tímann á bekknum.

Glódís Perla og Karólína Lea voru hins vegar í byrjunarliði Bayern um miðjan fyrri hálfleik komust heimakonur yfir. Karólína Lea las leikinn vel þegar Catarina Amado átti slaka sendingu til baka.

Karólína náði boltanum, fór framhjá Carolina Dias og renndi boltanum í netið. Aðeins tveimur mínútum síðar var staðan orðin 2-0, Lea Schüller skallaði þá aukaspyrnu Klöru Bühl í netið. 

Aðeins voru 149 sekúndur á milli fyrsta og annars marks Bayern. Fleiri yrðu mörkin þó ekki í fyrri hálfleik og staðan því enn 2-0 er liðin gengu til búningsherbergja.

Bayern byrjaði síðari hálfleik af krafti. Eftir þriggja mínútna leik var vítaspyrna dæmd, Giulia Gwinn fór á punktinn og skoraði af öryggi. Heimakonur unnu boltann strax aftur og Bühl kom þeim í 4-0 innan við mínútu eftir að þriðja mark leiksins hafði verið skorað.

Aðeins munaði 49 sekúndum á milli markanna að þessu sinni. 

Staðan því orðin 4-0 þegar aðeins 49 mínútur voru liðnar og leikurinn svo gott sem búinn. Í kjölfarið róuðust leikar töluvert og þó gestirnir frá Portúgal hafi ógnað aðeins undir lok leiks voru þær aldrei nálægt því að minnka muninn.

Glódís Perla í baráttunni við Cloé Lacasse, fyrrverandi leikmann ÍBV.Roland Krivec/Getty Images

Í hinum leik riðilsins vann Lyon einnig 4-0 sigur þökk sé mörkum Catarinu Macario, Ade Hegerberg, Amöndu Henry og Janice Cayman. Tryggði Lyon sér þar með toppsæti riðilsins.

D-riðill endar því þannig að Lyon er með 15 stig á toppi riðilsins, Bayern þar á eftir með 13 stig, Benfica með fjögur og Häcken þrjú stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×