Vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur skrifað undir samning milli íslenska ríkisins og Mílu um kvaðirnar. Í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands segir að þar sem samningurinn varði viðskiptahagsmuni Mílu verði hann ekki opinberaður.
Míla er heildsölufyrirtæki á fjarskiptamarkaði og felst kjarnastarfsemi Mílu í að byggja upp og reka innviði fjarskipta á landsvísu. Kerfi Mílu eru grunnur að fjölþættri fjarskiptaþjónustu um allt land.
Þá var myndaður starfshópur sem kannaði hvort viðskiptin ógnuðu öryggi landsins eða allsherjarreglu um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki. Frakkarnir ógnuðu ekki þjóðaröryggi Íslands.
Í áðurnefndri tilkynningu segir að á gildistíma samningsins gefist stjórnvöldum tími til að semja lög um kvaðirnar sem Míla undirgengst í samningnum. Er vísað til frumvarps um lög um fjarskipti og frumvarps um lög um rýni fjárfestinga erlendra aðila í þýðingarmiklum samfélagsinnviðum og tengdri starfsemi vegna þjóðaröryggis.
Þá er einnig vísað til frumvarps til laga um breytingar á lögum um fjarskipti, lögum um Fjarskiptastofu og lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri sem er nú til meðferðar á Alþingi.