Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2 en um þrjúþúsund manns búa í bænum Qaqortoq. Til að komast í flug þurfa íbúarnir að sigla í tvo klukkutíma til Narsarsuaq sem núna er aðalflugvöllur Suður-Grænlands. Beint áætlunarflug er þangað frá Reykjavík á sumrin.

Nýr flugvöllur við Qaqortoq átti raunar að vera þriðja stóra flugvallarverkefni Grænlendinga um þessar mundir. En meðan framkvæmdir í Ilulissat og Nuuk eru á fullu hefur fjárskortur hamlað því að hægt yrði að hefjast handa í Qaqortoq, - allt þar til nú að grænlensku stjórnarflokkarnir tilkynntu við fjárlagagerð landsstjórnarinnar að þeir væru búnir að finna andvirði níu milljarða íslenskra króna í verkið.

Fréttamiðillinn KNR greinir frá því að íbúar Qaqortoq hafi skotið flugeldum á loft og sungið af gleði þegar þeir fengu fregnirnar. Skýringarnar sem grænlensk stjórnvöld gefa á þessum óvæntu viðbótartekjum eru einkum loðnugróði, sem allur kemur af Íslandsmiðum um þessar mundir.
Grænlendingar eiga rétt á tuttugu prósentum kvótans, eða um 180 þúsund tonnum á yfirstandandi vertíð, sem gæti skilað tólf milljarða króna verðmæti. Polar Amaroq er annað af tveimur skipum Grænlendinga sem veiða loðnuna hér við land en útgerðin er að þriðjungi í eigu Síldarvinnslunnar og með íslenska yfirmenn um borð. Hitt skipið er Tasiilaq, en útgerð þess er að þriðjungi í eigu Ísfélags Vestmannaeyja.

Grænlensku skipin munu þó aðeins veiða um þriðjung grænlenska kvótans, að mati Gunnþórs Ingvasonar hjá Síldarvinnslunni. Hann áætlar að stærsti hluti loðnutekna Grænlendinga muni koma í gegnum kvótaleigu til Evrópusambandsins, sem noti loðnukvótana svo í skiptisamningum við Norðmenn.
En þökk sé væntingum um góða loðnuvertíð við Ísland í vetur, þá stefnir flugvallafélag Grænlendinga núna á að hefja framkvæmdir við 1.500 metra flugbraut í Qaqortoq strax í sumar, að því er talsmaður Kalaallit Airports greinir frá. Áform um að spara með því að leggja styttri braut og reisa minni flugstöð hafa verið dregin til baka.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: