Óveðrið hefur einnig skilið eftir sig gríðarlega slóð eyðileggingar í nágrannaríkjum. Manntjón er talið hafa orðið í Illinois þegar þak á vöruhúsi verslunarrisans Amazon hrundi ofan á starfsmenn. Ríkisstjóri Kentucky segir hvirfilbylinn þann versta í sögu ríkisins og að mannfall hafi aldrei verið jafn mikið.
Andy Beshear, ríkisstjóri Kentucky, lýsti yfir neyðarástandi fyrir miðnætti og virkjaði þjóðvarðliðið í ríkinu.

Um 110 manns voru í kertaverksmiðjunni í Mayfield þegar hvirfilbylurinn skall á byggingunni. Viðbragðsaðilar í Kentucky og liðsmenn þjóðvarðliðsins safnast nú saman í Mayfield til að taka þátt í leit og björgunaraðgerðum.
Leitar- og björgunarteymi hafa leitað í rústum bygginganna í allan dag en lögregluyfirvöld gátu ekki staðfest að svo stöddu hversu mörg lík hafi fundist í rústunum. Að sögn lögreglu gæti það tekið heilan dag og jafnvel lengur að fjarlægja allt brakið á svæðinu.
Joe Biden Bandaríkjaforseti gaf út í morgun að alríkisyfirvöld muni tryggja að þau ríki sem hafi orðið fyrir hvirfilbylnum „fái það sem þau þurfa.“
Chilling video shows the cries of a candle worker trapped inside a factory after a deadly tornado collapsed their building. Kyana Parsons-Perez is speaking out on this horrifying experience amid severe tornado storms across the country. pic.twitter.com/zsr0rhc3RQ
— TODAY (@TODAYshow) December 11, 2021
Föst í tvo tíma
Kyana Parsons-Perez, starfsmaður í kertaverksmiðjunni, var föst í minnst tvær klukkustundir undir 1,5 metra þykkum rústum áður en henni var bjargað.
Hún sagði í samtali við þáttastjórnendur Today á NBC-sjónvarpsstöðinni að þetta hafi verið hryllilegasti viðburður sem hún hafi nokkurn tíma upplifað og að hún hafi haft litla trú á því að hún kæmi til með að lifa hamfarirnar af.
Meðal þeirra sem aðstoðuðu við leitina í rústunum voru fangar sem sitja af sér dóm í nálægu fangelsi.
„Þeir hefðu getað nýtt tækifærið til þess að strjúka eða eitthvað, en þeir gerðu það ekki. Þeir voru þarna að hjálpa okkur,“ sagði Kyana Parsons-Perez.