Umræðan

Alvotech, Kerecis og öll hin – ekki líta fram hjá Kauphöll Íslands

Gunnar Ingi Halldórsson skrifar

Áhugaverðir tímar eru framundan á Íslandi og sérstaklega fyrir fjárfesta, bæði einstaklinga og fagfjárfesta. Ef marka má nýjustu fregnir stefna nokkur fyrirtæki á hlutabréfamarkað á næstunni, meðal annars Alvotech, Kerecis, Arctic Adventures og fleiri þegar fram líða stundir.

Við lestur frétta frá umræddum fyrirtækjum kemur fram að sumir frumkvöðlarnir horfa til erlendra hlutabréfamarkaða, eins og Bandaríkjanna og Svíþjóðar en virðast ætla að líta fram hjá Kauphöll Íslands. Það telur greinarhöfundur mögulega vera vanmat á okkar ágæta hlutabréfamarkaði í þessu litla landi sem státar þrátt fyrir allt af einni hæstu þjóðarframleiðslu á mann.

Virkur hlutabréfamarkaður er ein af grunnstoðum markaðsdrifinna hagkerfa

Margar og góðar ástæður eru til þess að fara með fyrirtæki á hlutabréfamarkað. Frumkvöðlar og fjárfestar sem komu inn á fyrri stigum fá þannig aðgang að meira fjármagni, fá markaðsverð á eign sína í fyrirtækinu og um leið tækifæri til að selja af hlut sínum ef þeir kjósa svo. Fyrirtækið fær aukinn sýnileika, greiningar frá sérfræðingum og aðgang að breiðari hópi fjárfesta um leið og upplýsingagjöf verður markvissari og gagnsæi á markaði eykst. Hlutabréfamarkaður er ein af undirstöðunum í markaðsdrifnu hagkerfi og hefur verið um aldir.

Ekki er hlaupið að því fyrir einstaklinga á Íslandi að kaupa og eiga hlutabréf í einstökum fyrirtækjum á erlendum hlutabréfamörkuðum. Ef rýnt er í staðreyndir þá kemur mikilvægi heima-kauphallar vel í ljós.

Heima er bezt en tvískráningar geta skilað aukinni veltu og sýnileika

Kauphöllin í heimalandinu gegnir þar mikilvægu hlutverki og það sanna dæmin héðan. Í heimalandinu búa gjarnan frumkvöðlarnir, verulegur hluti starfsfólks og stjórnenda fyrirtækjanna og í mörgum tilvikum stórir hluthafar einnig. Þar fer fram dagleg umræða um starfsemi og stöðu fyrirtækisins og áhugasamir fjárfestar bíða eftir tækifæri til að fá að taka þátt. Ekki er hlaupið að því fyrir einstaklinga á Íslandi að kaupa og eiga hlutabréf í einstökum fyrirtækjum á erlendum hlutabréfamörkuðum. Ef rýnt er í staðreyndir þá kemur mikilvægi heima-kauphallar vel í ljós.

Við eigum tvö góð dæmi um tvískráningar íslenskra fyrirtækja, Arion banka, sem er skráður á Íslandi og í Stokkhólmi (Nasdaq Stockholm) og Marel, sem er skráð á Íslandi og í Euronext kauphöllinni í Amsterdam.VÍSIR/VILHELM

Í löndum þar sem innlendur hlutabréfamarkaður er skammt á veg kominn í þroska getur verið rökrétt að horfa eingöngu til erlendra hlutabréfamarkaða og til eru dæmi um slíkt, til dæmis frá Austur-Evrópu. Það er þó varla hægt að segja um hlutabréfamarkað á Íslandi sem starfað hefur frá 1992. Algengari eru tvískráningar fyrirtækja og fjöldamörg dæmi um slíkt, einkum þá fyrirtæki sem skrá hlutabréf í heimalandinu og skrá svo hlutabréfin á markað í Bandaríkjunum samtímis eða síðar.

Dýpt markaðar er heima þótt tvískráning auki sýnileika

Nú höfum við tvö góð dæmi um tvískráningar íslenskra fyrirtækja, Arion banka, sem er skráður á Íslandi og í Stokkhólmi (Nasdaq Stockholm) og Marel, sem er skráð á Íslandi og í Euronext kauphöllinni í Amsterdam. Seljanleiki bréfa á markaði – stundum kallað dýpt markaðar – er mikilvægur þáttur í skráningunni og þarf að vera góður til að skráning bréfanna teljist vel heppnuð. Í báðum ofangreindum tilvikum er seljanleiki bréfanna og dýpt markaðar í Kauphöll Íslands þótt viðskipti með bréfin fari líka fram erlendis og séu jafnvel fleiri þar að tölu. Sem dæmi þá nam veltuhraði (velta hlutabréfa/markaðsvirði fyrirtækis) hlutabréfa Marel um 20% í Kauphöll Íslands árið 2020 en var 0,14% í Amsterdam. Sama gildir um Arion banka – dýpt markaðarins og veltan er á Íslandi þótt viðskiptin séu fleiri að tölu í sænsku kauphöllinni.

Í heimalandinu búa gjarnan frumkvöðlarnir, verulegur hluti starfsfólks og stjórnenda fyrirtækjanna og í mörgum tilvikum stórir hluthafar einnig.

Þannig er líklegra að stærri fjárfestar eða hluthafar, innlendir sem erlendir, myndu leita í heima-kauphöllina til að eiga viðskipti með bréfin. Tvískráningar hlutabréfa geta því verið góð leið til að auka sýnileika og veltu og breikka mögulegan hóp fjárfesta – en varhugavert er að líta fram hjá kauphöllinni í heimalandinu og þar þarf jafnvel ekki skyldurækni til.

Nokia Stock Exchange

Samskonar hlutföll sjást almennt ef tölur um tvískráð fyrirtæki erlendis eru skoðuð niður á fyrirtæki. Þó eru á því einhverjar undantekningar, eins og með hlutabréf Nokia á gullaldarárum þess. Nokia var og er skráð á hlutabréfamarkaði í Helsinki (Nasdaq Helsinki) og New York Stock Exchange. Á sínum tíma var gantast með að Helsinki Stock Exchange ætti að heita „Nokia Stock Exchange“ því þar var gríðarleg velta með bréf Nokia og allt annað í Finnlandi hvarf í skugga Nokia þó veltan með bréfin væri jafnvel meiri á tímabilum í New York. Í tilviki Nokia bentu þó sumar rannsóknir þó til þess að dýpt markaðarins væri ekki minni í Helsinki en í New York þrátt fyrir að stór viðskipti væru fleiri í NY.*

Höfundur er viðskiptafræðingur og starfar við fjárstýringu og áhættustýringu hjá Isavia ohf. en starfaði um nokkurra ára skeið hjá Verðbréfaþingi Íslands (nú Nasdaq Iceland).

*Esa Jokivuolle and Markku Lanne - Trading Nokia: The Roles of the Helsinki vs. the New York Stock Exchanges 2005.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Skyldurækni gagnvart heimamarkaðinum

Í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum árið 2012 steig Barack Obama, sem sóttist þá eftir endurkjöri, upp á svið í Virginíuríki og flutti ræðu sem átti eftir að lita kosningabaráttuna. 




Umræðan

Sjá meira


×