Eftir miklar fjárfestingar á undanförnum árum lifði rekstur hótels Sögu ekki kórónukreppuna af og var rekstrarfélag þess úrskurðað gjaldþrota í lok september. Bændasamtökin eiga hins vegar húseignina þar sem eitt helsta hótel borgarinnar var starfrækt allt frá árinu 1962.
Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtakanna segir nokkra aðila hafa sýnt byggingunni áhuga undanfarið ár. Nú virðist vera að ganga saman með Bændasamtökunum og Háskóla Íslands.
„Við höfum verið í viðræðum við Háskóla Íslands eins og kemur fram í fjárlagafrumvarpi sem birtist í síðustu viku. Á þeim grunni erum við að reyna að ná þessu heim og saman á grundvelli tilboðs sem ríkið hefur gert í húsið,“ segir formaður Bændasamtakanna.
Þarna vísar Gunnar í heimild sem óskað er eftir í fjárlagafrumvarpinu um kaup fasteigna upp á allt að fimm milljörðum króna og tekið fram að þar muni mest um möguleg kaup á Sögu. Nú væri unnið að útfærslu á skiptingu lausamuna í hótelinu í samstarfi við þrotabú rekstrarfélagsins sem ætti hluta búnaðarins.

Þá þurfi að skoða hvort dæmið gangi upp varðandi þær kröfur sem lægju fyrir í fasteignina.
„Auðvitað er bankinn hluti af þessu samkomulagi því hann á langstærstu kröfuna í eignina. Þannig að það skiptir dálitlu máli hvernig niðurstaðan verði á því uppgjöri,“ segir Gunnar.
Samningar með fyrirvara um samþykki Alþingis gæti legið fyrir á næstu dögum.
„Eins og þetta lítur út í dag er verið að tala um að þrjátíu prósent af húsinu fari til Félagsstofnunar stúdenta. Restin fari til háskólans,“ segir Gunnar Þorgeirsson. Það væri hins vegar háskólans að útfæra það þegar þar að kæmi.