
Hálsmen getur einnig verið armband
Ný skartgripalína Hlín Reykdal, sem ber nafnið Young, er að mörgu leyti ólík fyrri línum hennar en suma skartgripina er hægt að nota á marga vegu.
„Sem dæmi getur hálsmen orðið að armbandi með því að vefja því um úlnliðinn. Þú ræður hversu stutt eða síð menin eru og sum getur þú haft tvöföld eða einföld. Mikið af eyrnalokkum eru í línunni sem henta einnig vel þeim sem hafa fleiri en tvö göt í eyrunum.“

Línan einkennist af 18 karata gullhúðuðum keðjum, svörtum steinum ásamt platínu húðuðum handgerðum keðjum.
Íslensk hönnun í jólapakkann
Litadýrð hefur einkennt hönnun Hlínar en notast hún við gylltan, silfur og svart.
Þó svo að línan beri nafnið Young segir hún skartgripina þó vera fyrir alla þá sem elski að bera fallegt skart, algjörlega óháð aldri.
Finnur þú fyrir því að fólk vilji kaupa íslenska hönnun í jólapakkann?
„Já, heldur betur. Við finnum vel fyrir því hér í Kiosk Grandagarði en við seljum aðeins íslenska fatahönnun og skartgripi.

Það hefur verið mikil gróska í íslenskri hönnun almennt undanfarin ár, fjölbreytni og fagmennska. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því ég byrjaði í bransanum 2009,“ segir Hlín að lokum.
Hér fyrir neðan er hægt að sjá fleiri myndir af skartgripalínunni Young.




