„Við göngum mjög sáttar frá þessu móti,“ sagði Klara í samtali við Vísi eftir keppnina.
Íslenska liðið náði sér vel á strik og betur en í undanúrslitunum.
„Við hefðum eiginlega ekki getað staðið okkur betur. Við vorum miklu betur settar andlega og í fimleikunum en í undanúrslitunum,“ sagði Klara.
Íslenska liðið fékk frábæra einkunn fyrir dansinn, 20.900, sem var hæsta einkunnin sem var gefin í dag. Hún dugði þó ekki til að komast upp fyrir Svía sem voru á endanum 0.100 á undan Íslendingum.
„Þetta er smá súrt silfur en við göngum samt mjög sáttar frá mótinu,“ sagði Klara. Að hennar sögn tekur núna við langþráð frí áður en keppnistímabilið hér heima hefst.