Blinken sagði á blaðamannafundi í dag að ekki væri vitað hvort Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefði tekið ákvörðun um að ráðast inn í Úkraínu. Hann hefði hins vegar stillt nægilega mörgum hermönnum við landamærin svo hann gæti gert það með skömmum fyrirvara.
Ráðherrann ítrekaði, þar sem hann var á fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins í Riga í Lettlandi, að Bandaríkin myndu bregðast harkalega við innrás í Úkraínu.
Hér má sjá hluta ræðu Blinkens frá því í dag.
Yfirvöld í Kænugarði segja Rússa hafa flutt rúmlega níutíu þúsund hermenn að landamærum sínum. Rússland innlimaði Krímskaga af Úkraínu árið 2014 og hafa ráðamenn þar stutt við bakið á aðskilnaðarsinnum í austurhluta landsins. Meðal annars með vopnum og hermönnum.
Rússar segjast óttast innrás Úkraínu í Úkraínu
Samkvæmt frétt Reuters segja ráðamenn í Rússlandi að þeir óttist að Úkraína ætli að gera innrás í austurhluta Úkraínu og reka aðskilnaðarsinna á brott. Þess vegna séu þeir með sína hermenn við landamærin.
Rússar hafa haldið umfangsmiklar heræfingar við landamæri Úkraínu og hafa hermenn frá Hvíta-Rússlandi einnig tekið þátt í æfingunum.

Vólódómír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði á þingi þar í landi í dag að viðræður við Rússa þyrfti til að binda enda á átökin í Austurhluta landsins, þar sem um fjórtán þúsund manns hafa fallið á undanförnum árum. Hann sagði að án viðræðna væri ekki hægt að stilla til friðar.
Dmitrí Peskóv, talsmaður Pútíns, sagði þó að átökin í austurhluta Úkraínu vera innanríkismál Úkraínu. Það kæmi Rússlandi ekki við. Sagði hann að viðræðurnar þyrftu að vera milli Kænugarðs og aðskilnaðarsinnanna.
Vill lögbundna skuldbindingu frá NATÓ
Ríkisstjórn Pútíns hefur lengi verið andsnúin auknum samskiptum Úkraínu við Evrópu og núverandi ætlanir ráðamanna þar um að ganga í bæði Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið hafa ekki fallið í kramið í Moskvu.
Í gær sagði Pútín að frá sínum bæjardyrum séð kæmi ekki til greina að hermenn Atlantshafsbandalagsins kæmu sér fyrir í Úkraínu.

Pútín sagði svo í dag að hann vildi viðræður við NATÓ um að varnarsamstarfið myndi ekki teygja anga sína lengra til austurs og að vopnum yrði ekki komið fyrir nærri Rússlandi. Samkvæmt AP fréttaveitunni sagðist Pútín ekki vilja munnlegt samkomulag, heldur lagalega skuldbindingu frá NATÓ.
Blinken virtist þó ekki sammála forsetanum rússneska.
„Það að Úkraína ógni Rússlandi væri brandari ef ástandið væri ekki svona alvarlegt,“ sagði Blinken. „NATÓ er varnarbandalag. Við erum ekki ógn gagnvart Rússlandi.“